Innlent

Þórður segir að ÍA hafi reynt að losa sig við Mark eftir árásina

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þórður Þórðarson var þálfari Mark Doninger þegar hann réðst á Guðrúnu Dögg Rúnarsdóttur.
Þórður Þórðarson var þálfari Mark Doninger þegar hann réðst á Guðrúnu Dögg Rúnarsdóttur. Vísir/Valgarður Gíslason
„Auðvitað situr það í manni að þurfa að stíga inn í svona,“ segir Þórður Þórðarson fyrrum þjálfari hjá ÍA í samtali við Vísi. Þórður var þjálfari Mark Doninger á tímabili og stöðvaði síðustu barsmíðar hans á Guðrúnu Dögg Rúnarsdóttur. Í einlægu viðtali í Fréttablaðinu í dag lýsir Guðrún sambandinu við Mark, ofbeldinu sem hún þurfti að þola og nóttinni sem Þórður þjálfari kom henni til bjargar.

„Eina skiptið sem ég kom nálægt þessu máli var þegar ég fór þangað í þessu tilviki sem hún vísar í. Ég kem á svæðið og tek þau í sundur. Annars sá framkvæmdastjóri félagsins um öll svona mál og stjórn félagsins.“

Í viðtalinu segir Guðrún að á meðan á málaferlunum vegna ofbeldisins stóð, hafi ÍA staðið við bakið á Mark allan tímann, jafnvel þó að þjálfari liðsins hafi komið að honum að reyna að drepa hana.

„Ég kom ekki nálægt þessu nema þessa nótt þegar ég fór heim til þeirra. Rétt eftir miðnætti held ég að það hafi verið, og tók hana með mér og rak hann út úr herberginu. Það eru einu afskipti mín af þessu máli,“ segir Þórður. „Þjálfarar yfir höfuð eru ekkert að skipta sér af leikmönnum utan æfingartíma.“

Hélt að hún myndi deyja

Hér fyrir neðan má finna lýsingar Guðrúnar Daggar af því þegar Þórður kom að Mark þar sem hann reyndi að kyrkja hana.

„Eins og áður segir vorum við hætt saman, en hann hélt áfram að koma fyrir utan heimili mitt og lét mig ekki í friði. Hann sendi mér ítrekað myndir af sér að rispa á sér úlnliðina og sagðist ætla að drepa sig ef ég kæmi ekki og hótaði því líka að setja myndir og myndbönd af mér á netið sem hann hafði tekið í leyfisleysi. Í eitt skiptið var ég verulega hrædd og lét til leiðast. Hann var mjög almennilegur þegar ég kom og við náðum að ræða saman á rólegum nótum. En þegar hann sagðist vilja byrja með mér aftur og ég sagði það ekki inni í myndinni, sturlaðist hann gjörsamlega. Hann bjó með þremur öðrum leikmönnum úr liði ÍA og þegar hann heyrði að þeir væru að koma inn í íbúðina dró hann mig á hárinu inn í herbergið sitt. Ég reyndi að berjast á móti, en hann var einfaldlega sterkari. Hann henti mér upp í rúm og byrjaði að berja mig. Strákarnir heyrðu hrópin í mér, en voru of hræddir til að koma inn. Ég komst að því eftir á að þeir hringdu í þjálfara liðsins frammi á gangi. Á þeim fimm mínútum sem liðu þar til þjálfarinn kom á staðinn náði Mark næstum því að drepa mig. Hann festi hendurnar á mér og var kominn það langt í að kyrkja mig að ég var öll orðin blá í framan og háræðarnar á hálsinum slitnuðu niður að brjóstum. Ég man að það sem ég hugsaði var: ,,Ég trúi ekki að ég sé að fara að deyja á þennan hátt!“ Ég fór að hugsa um foreldra mína og fjölskyldu og hélt bara að ég væri að deyja. Það síðasta sem ég man áður en þjálfarinn kom loks á staðinn var að hann skallaði mig í andlitið, þannig að báðar varir mínar sprungu illa.“

Þórður kom þegar þarna var komið sögu inn í herbergið og náði að koma Guðrúnu Dögg út úr herberginu og koma henni við illan leik heim til sín. Hún hafði þegar í stað samband við lögreglu og kærði í kjölfarið Mark Doninger fyrir tvær alvarlegar líkamsárásir. Hann var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.

„Ég kærði hann fyrir árásirnar sem höfðu átt sér stað fyrir framan annað fólk, en gat auðvitað ekki kært hann fyrir öll skiptin sem hann réðst á mig þegar við vorum tvö ein, þar sem vitni skorti.“

Fréttablaðið/Sigtryggur

Reyndu að losa sig við Mark eftir atvikið

ÍA sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem félagið viðurkennir mistök í máli Mark. Þar kom fram að eftir skoðun óháðra aðila hafi breytingar verið gerðar varðandi viðbrögð í svona málum, og að Guðrún Dögg hefði verið beðin afsökunar.

„Þetta er mjög leiðinlegt, þetta eru ekki skemmtileg mál að eiga við,“ segir Þórður. Hann segir að það hafi verið erfitt að þjálfa í þessum aðstæðum, vitandi af því sem hafði gerst.

„Við tókum á þessu máli innan félagsins strax og þó að það hafi ekki verið gert „en, to, tre,“ þá var unnið í því. Það er ekkert hlaupið að því að henda leikmanni í burtu.  Það er náttúrulega enginn sekur uns sekt er sönnuð og á þessum tímapunkti var ekki búið að dæma í þessu máli. Hvað ef við hefðum hent honum í burtu og svo hefði komið í ljós að þetta var lygi. Þá hefðum við verið hengdir af hans hálfu, af hans lögfræðingum. Þetta er ekki alveg svart og hvítt sko. Við tókum á þessu máli á sínum tíma. Ég veit hvernig þetta mál var frá A til Ö og ég veit hvað félagið gerði. Það er ekki satt að félagið hafi ekki gert neitt.“

Þórður bendir á að þegar Mark var dæmdur hafi hann verið farinn frá félaginu.

„Við unnum í því að losa okkur við leikmanninn þegar þetta mál kemur upp. Það gerðum við á endanum og seldum hann til Stjörnunnar. Ég efast ekki um það að ef hann hefði verið dæmdur ef hann hefði verið leikmaður hjá okkur að hann hefði verið látinn fara því þá værum við komnir með ástæðu til að reka hann.“  



Hikaði ekki áður en hann fór af stað

Þórður segir málið hrikalegt og að atvikið þessa nótt sitji enn í sér.

„Auðvitað situr það í manni að þurfa að stíga inn í svona. Það er engin spurning.“

Hann segist þó aldrei hafa hikað þegar símtalið kom, hann stökk strax af stað.

„Þeir hringja í mig strákarnir og báðu mig að koma. Ég bý hérna 500 metra frá því hvar þetta gerðist. Það var ekkert um annað en að henda sér í föt og bruna yfir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×