Innlent

Vilja setja 120 milljónir í gamla kvennaklefann

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Endurnýja þarf gamla kvenna­klefann.
Endurnýja þarf gamla kvenna­klefann. Fréttablaðið/Anton Brink
Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar hefur óskað eftir heimild borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir við endurnýjun eldri búnings- og baðaðstöðu kvenna í Sundhöll Reykjavíkur. Er talið að framkvæmdirnar geti kostað allt að 120 milljónir króna.

Í greinargerð kemur fram að með opnun nýrrar útilaugar í desember hafi aðsókn að Sundhöllinni stóraukist og að mikið mæði nú á innviðum. Núverandi aðstaða dugi ekki til að anna aðsókn á álagstímum.

„Með endurnýjun gömlu kvennaklefanna á jarðhæð Sundhallarinnar er hægt að mæta aukinni aðsókn. Aðstaðan getur nýst hvort heldur fyrir konur eða karla þar sem unnt er að stýra notkun eins og best þykir henta hverju sinni.“

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í júní og standi í fimm mánuði. Meðal annars sem þarf að gera er að endurnýja flísalögn kvennabaða gömlu Sundhallarinnar og stiga upp að innilaug. Þá eru flísar í sturtuklefa orðnar mattar, múr milli flísa farinn að losna og rakaskemmdir sjáanlegar á máluðum flötum.

Viðgerðirnar eiga að vera í samráði við hönnuði, Minjastofnun Íslands og notendur. Sundhöllin var friðuð árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×