Íslenski boltinn

Þór/KA meistari meistaranna | Enn einn titillinn norður yfir heiðar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þór/KA stelpurnar fagna Íslandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð.
Þór/KA stelpurnar fagna Íslandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð. vísir/þórir
Íslandsmeistarar Þór/KA höfðu betur gegn bikarmeisturum ÍBV þegar liðin mættust í Meistarakeppni KSÍ á KA-velli á Akureyri í dag. Aðeins eru fimm dagar síðan Akureyrarliðið tryggði sér gullverðlaun í Lengjubikarnum með sigri á Stjörnunni.

Besti leikmaður Íslandsmótsins 2017, Sandra Stephany Mayor, kom Þór/KA á bragðið í dag þegar hún skoraði eftir fyrirgjöf Önnu Rakelar Pétursdóttur. Staðan í leikhléi 1-0.

Margrét Árnadóttir tók svo yfir leikinn í upphafi síðari hálfleiks og skoraði tvö mörk með tíu mínútna millibili. Fleiri urðu mörkin ekki og öruggur 3-0 sigur Íslandsmeistaranna staðreynd.

Þór/KA er því handhafi þriggja meistaratitla þessa stundina og óhætt að segja að liðið komi á fleygiferð inn í Pepsi-deildina sem hefst um næstu helgi.

Þór/KA hefur titilvörnina í Grindavík á laugardag en Eyjakonur hefja leik á föstudag þegar þær fá KR í heimsókn á Hásteinsvöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×