Erlent

Taugaeitrið frá Rússlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla hefur rannsakað heimili Skripal-fjölskyldunnar að undanförnu.
Lögregla hefur rannsakað heimili Skripal-fjölskyldunnar að undanförnu. Vísir/Getty
Taugaeitrið sem notað var til þess að eitra fyrir Skripal-fegðininum í Bretlandi kemur upprunalega frá Rússlandi að mati Efnavopnastofnunarinnar, OPCW. BBC greinir frá.

Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að blóðsýni hafi verið rannsökuð sem staðfesti niðurstöður breskra rannsóknarstofnanna sem áður höfðu gefið út að um eitrið Novichok værið að ræða, sem þróað var í Rússlandi.

Rússar hafa þvertekið fyrir að hafa staðið að taugaeitursárásinni í upphafi síðasta mánaðar þegar eitrað var fyrir Sergei og Juliu Skripal í breska bænum Salisbury.

Júlía hefur yfirgefið sjúkrahúsið er hún var flutt á eftir að feðginin fundust meðvitundarlaus á bekk. Sergei er enn á sjúkrahúsi en er ástand hans sagt sífellt batnandi.

Sergei var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.

Rússar segjast sem fyrr segir saklausir og hafa sakað Breta og önnur Vesturlönd um blekkingarleiki í málinu. Meðal þess sem þeir hafa sagt er að Bretar séu að nota feðginin til að beina sviðsljósinu frá eigin vandræðagangi í tengslum við Brexit.


Tengdar fréttir

Bretar ætla að reka 23 rússneska njósnara úr landi

Það var gert eftir að Rússar neituðu að útskýra hvernig taugaeitur sem þróað var í Rússlandi var notað til þess að reyna að myrða fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×