Lífið

JóiPé og Króli sjá eftir myndatöku við brunann

Stefán Árni Pálsson skrifar
Félaganir með reykinn í bakgrunni.
Félaganir með reykinn í bakgrunni. vísir/birgir
Rappararnir JóiPé og Króli kíktu á vettvang brunans í Miðhrauni 4 þar sem eldur logar enn í rúmlega 5000 fermetra húsnæði. Þeir félagar segjast hafa verið staddir í nágrenninu að taka upp myndband við lag sitt Þráhyggju í morgun.

Króli segir í samtali við Vísi að þeir hafi í framhaldinu haldið að brunanum þar sem teknar hafi verið tvær ljósmyndir. Þeir hafi í framhaldinu séð að sér og ekki fundist smekklegt það sem þeir höfðu gert.

„Þetta var 100 prósent rangt,“ segir Króli í samtali við Vísi. Myndirnar verði ekki notaðar á neinn hátt í tónlistarstarfi þeirra.

„Svona bruni er ekki eitthvað sem maður á að notfæra sér,“ segir Króli fullur iðrunar.

Eldurinn kviknaði á níunda tímanum en um er að ræða atvinnuhúsnæði í Garðabæ. Að sögn sjónarvotta varð mikil og hávær sprenging.

Slökkvilið hefur beðið fólk um að halda sig frá vettvangi brunans en aðstæður eru erfiðar. Allar líkur eru taldar á því að húsið sé ónýtt.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:32 eftir að rætt var við Króla. Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að þeir væru að taka upp myndband á vettvangi brunans. Króli segir að þeir hafi verið að taka upp myndbandið í nágrenninu.

Myndbandið sem Jói Pé og Króli voru að skjóta í morgun kemur út 16. apríl.vísir/birgir
Félaganir á vettvangi í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×