Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en þessar aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru hluti af samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar á Sergei Skripal í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins.

Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland hafa öll vísað rússneskum erindrekum úr landi auk þess sem mörg samstarfsríki Íslands í NATO hafa gert slíkt hið sama. Bretar og Bandaríkjamenn hafa vísað tæplega 90 rússneskum erindrekum úr landi vegna málsins.

Sendiherra Rússlands var kallaður á fund Guðlaugs Þórs í utanríkisráðuneytinu í dag þar sem honum var greint frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Aðgerðir í hlutfalli við stærð íslenska sendiráðsins í Rússlandi
Ari Trausti Guðmundsson, fulltrúi vinstri grænna í utanríkismálanefnd, segir ástæðu þess að engum sé vísað úr landi þá að í sendiráði Íslands í Moskvu séu þrír fulltrúar. Aðgerðir Íslands séu í hlutfalli við stærð sendiráðsins.„Ef við vísum rússneskum diplómata úr landi þá eru Rússar líklegir til að gjalda líku líkt. Þá mætti segja sem svo að sendiráðið væri óstarfhæft,“ segir Ari Trausti en vísaði annars á utanríkisráðherra fyrir frekari svör.
Ekki náðist í Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra við vinnslu fréttarinnar. Hann verður gestur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld klukkan 18:30.