Ekki er algengt að leiðtogar þessara fjögurra ríkja, þau Theresa May, Donald Trump, Angela Merkel og Emmanuel Macron, sendi frá sameiginlegar yfirlýsingar. Yfirlýsingin nú kemur í kjölfar þess að bresk yfirvöld hafa unnið hörðum höndum að því að fá stuðning alþjóðasamfélagsins við viðbrögð sín við árásinni, að því er fram kemur í frétt Guardian.
„Árásin er ógn við öryggi okkar allra“
„Notkun á hernaðarlegu taugaeitri, af þeirri tegund sem þróað er af rússneskum yfirvöldum, er fyrsta árás sinnar tegundar í Evrópu síðan í síðari heimsstyrjöldinni,“ segir í yfirlýsingunni þar sem jafnframt er tekið fram að ríkin fjögur fordæmi árásina gegn Skripal-feðginunum.„Breskur lögreglumaður sem einnig varð fyrir árásinni er enn þungt haldinn og líf margra saklausra breskra borgara hefur verið ógnað. [...] Þetta er ógn við fullveldi Bretlands og öll sambærileg notkun af hálfu ríkis er augljóst brot á sáttmála um efnavopn sem og brot á alþjóðalögum. Árásin er ógn við öryggi okkar allra. Bretland hefur gert vinaþjóðum sínum grein fyrir því að það telji afar líklegt að rússnesk yfirvöld beri ábyrgð á árásinni,“ segir í yfirlýsingunni.
Yfirlýsingin kemur daginn eftir að May tilkynnti að hún muni vísa 23 rússneskum erindrekum frá Bretlandi á næstunni vegna árásarinnar. Rússnesk yfirvöld hafa alfarið neitað því að hafa eitthvað haft með árásina að gera og hyggjast vísa breskum erindrekum frá Rússlandi vegna aðgerða breskra yfirvalda gegn Rússum.