Arnold Classic er boðsmót sem ofurstjarnan Arnold Schwarznegger heldur á hverju ári en Hafþór Júlíus, sem sjö sinnum hefur unnið sterkasti maður Íslands, fékk silfur á sama móti í fyrra.
Hafþór vann þrjár greinar af fimm; sekkjakast yfir rá, öxullyftu og réttstöðulyftu en hann setti heimsmet í réttstöðulyftu með því að hífa upp 472 kg.
Þessi þrefaldi sterkasti maður Evrópu kastaði svo 43 kg þungum sekk yfir 4,57 metra en fyrir sigurinn á mótinu fékk hann 72.000 dali eða um átta milljónir íslenskra króna.
„Þetta er búið að vera langt ferli en mjög skemmtilegt. Fyrir tveimur árum síðan endaði ég í fimmta sæti, ég var svo annar í fyrra og núna náði ég fyrsta sæti. Þetta er ótrúlegt og ég er mjög ánægður með þetta,“ sagði Hafþór Júlíus eftir sigurinn í viðtali við RÚV.
Á Facebook-síðu sinni segist Fjallið svo ætla sér stóra hluti á árinu og þetta sé aðeins byrjunin.