Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að tillaga Evrópusambandsins um að Norður-Írland verði áfram hluti af innri markaði sambandsins eftir útgöngu Breta ógni „stjórnskipulegri einingu“ Bretlands. Hún segist ætla að lýsa andstöðu sinni við forsvarsmenn sambandsins.
Evrópusambandið lagði fram drög að tillögu um að Írland í heild haldi áfram í regluverk þess eftir Brexit ef engin önnur lausn finnst. Það þýddi í raun að Norður-Írlandi yrði áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Markmiðið væri að koma í veg fyrir að koma þyrfti upp landamæraeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands. Slíkt er talið geta ógnað friði sem ríkt hefur síðustu tvo áratugina.
Grefur undan sameiginlegum markaði Bretlands
May segir hins vegar að enginn forsætisráðherra Bretlands gæti fallist á tillögu sem þessa. Hún grafi undan sameiginlegum markaði Bretlands og ógni einingu þess. Hún sagði þingmönnum í dag að hún myndi gera sambandinu afstöðu sína „kristalskýra“.
Óeining hefur ríkt á Bretlandi um hvernig haga skuli sambandi landsins við Evrópu eftir aðskilnaðinn sem er fyrirhugaður á næsta ári.
Nigel Dodds, leiðtogi flokks sambandssinna á Norður-Írlandi sem ver minnihlutastjórn Íhaldsflokksins falli, furðar sig á að leiðtogar Evrópusambandsins hafi lagt slíka tillögu fram.
„Við yfirgáfum ekki Evrópusambandið til þess að hafa umsjón með sundrun Bretlands,“ segir Dodds sem telur að það yrði hörmulegt fyrir Norður-Íra að rjúfa tengslin við breskan markað.
Breska ríkisstjórnin hafnar tillögu ESB um Norður-Írland
Kjartan Kjartansson skrifar
