Sundlaugin var opnuð síðastliðið sumar og hefur vakið mikla athygli. Mikill metnaður var lagður í verkefnið af hálfu sveitarfélagsins Asker sem lagði meðal annars til eina af eftirsóknarverðustu lóðunum við strandlengjuna og nýtur sundlaugin nálægðar við Óslóarfjörðinn.
Hönnun hússins uppfyllir allar kröfur sem gerðar voru í upphafi. Til dæmis er hægt að ganga út á þak hússins sem er grasi vaxið og hallar mót suðri og fangar fallegt útsýnið yfir fjörðinn.

Verkfræðistofan Verkís annaðist verkefnastjórn, gerð kostnaðaráætlana og hönnun allra verkfræðilegra þátta.
Sundlaugin er ein orkuhagkvæmasta sundhöll Noregs. Hátt í helmingi af orkunni sem notuð er er aflað á lóð hennar. Notaðar eru varmadælur sem sækja orku úr borholum á lóðinni, sólarrafhlöður og sólfangarar.
Sundlaugin var valin eitt af svokölluðum fimmtíu fyrirmyndarverkefnum FutureBuilt í Noregi. Verkefnin eiga að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50 prósent þegar kemur að umferð, orku- og efnisnotkun.