Lífið

Aron Can semur við Sony

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Það er ekki leiðinlegt hjá Aroni Can þessa dagana. Vinsælasti tónlistarmaður landsins á síðasta ári og núna samningur við plöturisann Sony.
Það er ekki leiðinlegt hjá Aroni Can þessa dagana. Vinsælasti tónlistarmaður landsins á síðasta ári og núna samningur við plöturisann Sony. Fréttablaðið/Eyþór
Rapparinn Aron Can hefur skrifað undir samning við eitt stærsta plötufyrirtæki heimsins, Sony Music. Eftir samningaviðræður við fyrirtækið voru tveir útsendarar frá skrifstofu þess í Danmörku sendir til landsins með plögg fyrir rapparann unga að skrifa undir, sem hann og gerði.

Sony mun annast dreifingu á efni hans um heiminn og er það vel fyrir Aron enda þrautreynt fólk við stjórnvölinn hjá Sony, fyrirtækið hefur enda starfað í ein 89 ár.

Listamenn sem Sony hefur gefið út eru til að mynda sjálf Beyoncé, Bob Dylan, Justin Timberlake og fjöldinn allur af öðrum gríðarlega frægum tónlistarmönnum. Það er ekki beint leiðinlegur félagsskapur sem Aron er kominn í.

Hvernig er tilfinningin, Aron?

„Geggjuð. Þetta er alveg geðveikt skref og klárlega eitthvað sem er mjög gott fyrir okkur. Það er ekki spurning að þetta opnar fyrir okkur margar dyr. Okkur langar að fara að leita aðeins meira út fyrir landsteinana – þetta er klárt tækifæri til þess.“





Föstudagurinn var góður hjá Aroni og Sony-liðar mættu með kampavín.
Þú hefur kannski verið að plana að fara út alveg frá byrjun?

„Kannski ekki alveg frá byrjun, en maður sá hvernig hlutirnir þróuðust hjá okkur og hvað allt gekk hratt. Við kláruðum í raun allt á ári – það er ekkert það mikið eftir. Ég fór bara að pæla í hvort við vildum ekki eitthvað meira, því að við erum hungraðir.“

Hefurðu fundið fyrir miklum áhuga að utan?

„Já, ég hef fengið tilboð um að spila á Norðurlöndunum. Ég fæ líka sturlað mikið af skilaboðum á Facebook sem eru bara „ég og konan mín vorum í brúðkaupsferðalagi á Íslandi og heyrðum lagið þitt og höfum verið að hlusta á þig á hverjum degi síðan þá“. Fólk alls staðar að. Eitthvert fólk sem skilur ekkert hvað ég er að segja en nær samt að „væba“.“

Aðspurður hvort ný útgáfa sé á leiðinni segir hann dularfullur: „Já?… bráðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×