Innlent

Réðst á leigubílstjóra og stal af honum síma

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt.
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vihelm
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og eru allar fangageymslur nú fullar bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.

Skömmu eftir miðnætti var ölvaður maður handtekinn í Skógarhlíð grunaður um árás á leigubílstjóra og að hafa stolið frá honum farsíma. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um umferðaróhapp við Lækjargötu þar sem ekið hafði verið á umferðarljós og ökutækinu svo ekið af vettvangi. Afskipti höfð af ökumanninum skömmu síðar eftir að hann hafði einnig ekið á annan bíl. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og var hann að lokinni sýnatöku vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Til vandræða á Hlemmi

Þá var maður handtekinn við Hlemm um klukkan 17:30 í gær þar sem hann hafði „verið til vandræða“ og um 19:30 var kona í annarlegu ástandi handtekin á veitingahúsi við Suðurlandsbraut, en hún er grunuð um eignarspjöll.

Í dagbók lögreglu kemur fram að ölvaður maður hafi verið handtekinn við Bankastræti skömmu eftir klukkan tvö í nótt þar sem hann var að veitast að dyravörðum. Lögregla hafði ítrekað beðið manninn að yfirgefa staðinn en alltaf kom hann strax aftur.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans batnar.

Líkamsárás við Jafnasel

Skömmu eftir klukkan eitt í nótt hafði lögregla afskipti af ökumanni og tveimur farþegum við Dalveg vegna líkamsárásar sem gerð var við Jafnasel, sem og skemmdarverka. Ökumaðurinn er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Árásarþoli fór á slysadeild, en hann var meðal annars með lausar tennur.

Þá þurfti lögregla einnig að sinna fjölda annarra verkefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×