Erlent

Heilsu Hinriks hrakað hratt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hinrik prins liggur nú á spítala.
Hinrik prins liggur nú á spítala. Vísir/AFP
Heilsu Hinriks prins, eiginmanns Margrétar Þórhildar Danadrottningar, hefur hrakað mjög á síðustu dögum. Af þeim sökum hefur krónprinsinn Friðrik ákveðið að halda aftur heim til Danmerkur en hann hafði ætlað sér að vera við setningu Vetrarólympíuleikanna í Seúl í Suður-Kóreu.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá dönsku konungshöllinni sem send var út í morgun. Danskir fjölmiðlar hafa ekki fengið nánari upplýsingar um líðan Hinriks eða hver næstu skref verða.

Að sögn greinanda danska ríkisútvarpsins er þó ljóst að málið er alvarlegt. Krónprinsinn flýti sér ekki heim úr opinberum heimsóknum nema að tvísýnt sé um heilsu föður hans.

„Þetta er í fyrsta skipti sem konungshöllin sendir frá svo kvíðvænlegar upplýsingar um ástand Hinriks prins,“ er haft eftir greinandanum.

Hinrik var lagður inn á ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn í lok janúarmánaðar þar sem hinn 83 ára gamli prins hefur verið undir smásjá lækna.

Í tilkynningu frá höllinni, sem send var út 2. febrúar, var greint frá góðkynja æxli sem fundist hafði í vinstra lunga prinsins. Hann hafi undanfarna daga sætt meðferð til að sporna við lungasjúkdómum.

Ætla má, í ljósi tilkynningar dagsins, að komið hafi bakslag í meðferðina. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×