Svo virðist sem hugmynd fasteignafélagsins Reita um turn sem rís 110 metra yfir sjávarmál við Sæbraut neðan Höfða falli í grýtta jörð í borgarkerfinu. Borgarráð hefur nú heimilað skipulagssviði borgarinnar að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna vita í hefðbundnum stíl á þessum stað.
Fréttablaðið sagði frá hugmynd Reita 18. janúar síðastliðinn. Daginn eftir var haft eftir Hjálmari Sveinssyni, formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, í blaðinu að ekkert annað stæði til af hálfu borgarinnar en að halda sig við vita af þeirri gerð sem þegar eru við Reykjavíkurhöfn. Þremur dögum síðar var borgarráði síðan send ósk frá umhverfis- og skipulagssviði um að fá leyfi til að hefja framkvæmdir við slíkan vita, rétt eins og til hafði staðið.
Í vitanum eiga að vera innsiglingarljós fyrir sjófarendur. Þau koma í stað ljósa á Stýrimannaskólanum sem háhýsi við Höfðatorg skyggja nú á. Við vitann verður útsýnispallur. Kostnaður borgarinnar er áætlaður 75 milljónir króna en Faxaflóahafnir kosta smíði vitans sjálfs.
Turn Reita átti að reisa og reka í einkaframkvæmd en afhenda síðan borginni til eignar að 25 til 30 árum liðnum.
