Innlent

Konur taka yfir lista- og menningarlífið

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Kristín vil stefnumótun um valdeflingu kvenna í listum.
Kristín vil stefnumótun um valdeflingu kvenna í listum. vísir/stefán
„Ég held að þetta sé að breytast jafnt og þétt,“ segir Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, en hún hefur verið áberandi í umræðunni um vald­eflingu kvenna og lagt áherslu á að bæta þurfi stöðu kvenna innan listageirans og gefa þeim meiri völd.

Samantekt Fréttablaðsins sýnir hins vegar að konur virðast stjórna langflestum lista- og menningarstofnunum landsins. Þannig situr kona í ráðherrastól menningarmála, kona stýrir Bandalagi íslenskra listamanna, kona stýrir Íslensku óperunni, kona stýrir Borgarleikhúsinu, kona stýrir Íslenska dansflokknum, kona stýrir Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kona stýrir Hörpu, kona stýrir Listahátíð, konur stýra flestum menningarstofnunum Reykjavíkurborgar, konur stýra flestum söfnum. Í mörgum þessara stofnana eru konur í yfirgnæfandi meirihluta stjórnunarstarfa.



Aðspurð segir Kristín að það sé ekki nóg að hafa konu í leiðandi stöðu sem stjórnanda heldur þurfi meðvitaða stefnu um þessi mál og setja markmið sem unnið er út frá.

„Það er ekki sjálfgefið að það sé hugsað meira um þessi mál ef það er kona að stýra, það er auðvitað mjög einstaklingsbundið,“ segir Kristín og segist sjálf finna til ábyrgðar eftir að hafa unnið í faginu í tíu ár sem leikstjóri. „En við í Borgarleikhúsinu höfum sett okkur jafnréttisstefnu og fjölskyldustefnu sem við vinnum mjög markvisst út frá og ég held að það sé rétta leiðin,“ segir Kristín og tekur dæmi út frá sjálfri sér og þeirri stofnun sem hún stýrir:

„Það þarf að skoða þetta út frá allri listrænni stefnu hússins; hvaða leikrit er verið að setja upp, hvaða sögu er verið að segja, hvernig eru birtingarmyndir kvenna á sviðinu,“ segir Kristín. Hún segir að leikkonur þurfi að fá að takast á við djúpar og þrívíðar persónur og því skipti máli að jafna kynjahlutföll leikstjóra og leikskálda. „Reynsluheimur kvenna er oft allt annar og um það snýst þetta.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×