Erlent

Prófuðu dísilreyk á öpum og mönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi.
Málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi. Vísir/Getty
Stjórnvöld í Þýskalandi hafa fordæmt tilraunir sem fjármagnaðar voru af þýskum bílarisum þar sem apar og menn voru fengnir til að anda að sér dísilreyk. Málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi.

Þýskir fjölmiðlar segja að rannsóknirnar hafi verið framkvæmdar af EUGT í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum og fjármagnaðar af Volkswagen, Daimler og BMW.

BBC  greinir frá því að talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara segi að aðferðirnar sem notast var við hafi að fullu verið óréttlætanlegar og hafi verið farið fram á frekari upplýsingar um málið. Daimler hefur sömuleiðis fordæmt rannsóknirnar.

New York Times greindi nýlega frá því að þýsku fyrirtækin hafi fjarmagnað rannsóknir þar sem tíu apar hafi verið læstir inn í búri og látnir fylgjast með teiknimyndum á meðan þeir önduðu að sér dísilreyk. Þetta hafi verið gert árið 2014.

Önduðu að sér niðuroxíð

Nú hefur Stuttgarter Zeitung greint frá því að sambærilegar tilraunir hafi sömuleiðis verið gerðar á mönnum. Þetta hafi verið gert við Háskólann í Aachen þar sem tilraunir voru gerðar á 25 fullfrískum einstaklingum sem voru látnir anda að sér mismiklu magni nituroxíðs (NO2) í marga klukkutíma.

Það var stofnunin EUGT (The European Research Group on Environment and Health in the Transport Sector), sem ábyrgð bar á tilraununum, en EUGT var stofnað árið 2007 af Volkswagen, Daimler og BMW. Var upprunalegt verkefni EUGT að afsanna meiningar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um að dísilgufur valdi krabbameini í mönnum. Bílaframleiðendurnir leystu upp EUGT á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×