Innlent

Tíu milljónir til framkvæmdar dagskrár í Köben og Berlín vegna fullveldisafmælis

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Þórhildur hefur þegið boð forseta Íslands um þátttöku í hátíðarhöldum á Íslandi þann 1. desember 2018.
Margrét Þórhildur hefur þegið boð forseta Íslands um þátttöku í hátíðarhöldum á Íslandi þann 1. desember 2018. Vísir/AFP
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að veita tíu milljóna króna framlag af ráðstöfunarfé sínu vegna framkvæmdar afmælisdagskrár á vegum sendiráðanna í Kaupmannahöfn og Berlín.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að megin áhersla verði lögð á að fagna tímamótunum með dagskrá í þessum tveimur mikilvægu samstarfslöndum Íslands; Danmörku og Þýskalandi.

„Í fyrra tilvikinu, í ljósi tvíhliða eðlis málsins, munu dönsk stjórnvöld minnast tímamótanna með viðburðum á fræða- og menningarsviðinu, með þátttöku forseta Íslands, auk þess sem Margrét Danadrottning hefur þegið boð forseta Íslands um þátttöku í hátíðarhöldum á Íslandi þann 1. desember 2018.

Í síðara tilvikinu, Þýskalandi, er um að ræða leiðandi ríki í Evrópu, sem jafnframt er eitt allra mikilvægasta samstarfsríki og viðskiptaland Íslands í heiminum í dag.

Sendiráðin í báðum löndum hafa lagt drög að vandaðri og umfangsmikilli dagskrá sem skipulögð hefur verið í nánu samráði við fræða- og menningarstofnanir og kynningarmiðstöðvar heimafyrir og í hlutaðeigandi gistiríkjum,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×