Innlent

Segir sölu á borgareignum í Gufunesi vera vafasama

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá Gufunesi
Frá Gufunesi vísir/vilhelm
Skipulagsmál Borgarráð samþykkti í gær að heimila sölu lóða og byggingarréttar á Gufunesi undir kvikmyndaþorp og íbúðabyggð til GN Studios, fyrirtækis Baltasars Kormáks leikstjóra. Samningurinn er alls upp á 1,64 milljarða króna en málið bíður nú endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

Borgarráð stóð þó ekki heilt að baki samþykktinni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram bókun þar sem gerðar voru athugasemdir við að útboð skuli ekki hafa farið fram á sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhúsnæði sem og við kaupverðið.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.vísir/anton brink
Kjartan Magnússon segir í samtali við Fréttablaðið að líklega sé verið að selja eignir borgarinnar á undirvirði. „Þessi vinnubrögð eru svolítið vafasöm. Þetta er töluvert undir þeim verðmötum sem liggja fyrir,“ segir Kjartan og vísar þar til verðmata sem Jöfur og Eignamiðlun unnu.

„Eignamiðlun hefur mikla reynslu í verðmati á íbúðarhúsnæði og lóðum undir íbúðarhúsnæði. Þetta er 27 prósentum undir því verðmati,“ segir Kjartan.

Í bókun meirihlutans segir að veittur hafi verið tíu prósenta afsláttur frá verðmatinu vegna umfangs viðskiptanna, frumkvæðis stúdíósins, frumkvöðlastarfs í skapandi greinum ásamt „þeirri framsýnu klasauppbyggingu í kvikmyndagerð sem er að verða að veruleika í Reykjavík“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×