Innlent

Stuðningsfólk Miðflokksins sér á parti hvað varðar skötuát

Anton Egilsson skrifar
Það dregur úr skötuáti á milli ára.
Það dregur úr skötuáti á milli ára. Vísir/GVA
Alls 34,5 prósent ætla að borða skötu í dag, Þorláksmessudag, samkvæmt nýrri könnun MMR á jólahefðum landsmanna. Er það fækkun um eitt og hálft prósentustig frá því í fyrra og 7,6 prósentustiga fækkun frá því tíðni skötuáts náði hámarki í mælingum MMR árið 2013.

Samkvæmt könnuninni höfðar skatan meira til karla en kvenna en 41 prósent karla sögðust ætla að borða skötu í dag samanborið við 28 prósent kvenna. Þá var yngra fólk mun ólíklegra til að segjast ætla að borða skötu en eldra fólk. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára,  sögðust 20 prósent ætla að borða skötu á Þorláksmessu, borið saman við 60 prósent í aldurshópnum 68 ára og eldri.

Þá var fólk á landsbyggðinni töluvert líklegra til að segjast ætla að borða skötu en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsett á landsbyggðinni sögðust 46 prósent ætla að borða skötu á Þorláksmessu en einungis 28 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Stuðningsfólk Miðflokksins er duglegast við að borða skötu ef marka má könnunina en af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar og sögðust styðja Miðflokkinn ætluðu 54 prósent að borða skötu í dag, borið saman við 27 prósent stuðningsfólks Viðreisnar og 26 prósent stuðningsfólks Pírata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×