Sport

Íslendingar í stjórn UEG í fyrsta skipti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hlíf Þorgeirsdóttir og Sólveig Jónsdóttir
Hlíf Þorgeirsdóttir og Sólveig Jónsdóttir
Fimleikasamband Íslands á tvo fulltrúa í stjórn Evrópska fimleikasambandsins, UEG, eftir að kjörið var til stjórnar í dag.

Hlíf Þorgeirsdóttir var sjálfkjörin í stöðu formanns nefndar um fimleika fyrir alla, en mótframbjóðandi hennar dróg framboð sitt til baka. Hún var kjörin í starfið til fjögurra ára og fylgir því sæti í stjórn UEG.

Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Fimleikasambands Íslands, barðist um sjö laus sæti í stjórn UEG, en þrettán aðilar voru í framboði. Í annari umferð kosninga var staða Sólveigar í stjórninni orðin ljós.

Bæði Hlíf og Sólveig hafa starfað í nefndum UEG undanfarin ár. Ísland er eina landið sem á tvo fulltrúa í stjórninni, en alls sitja hana átján manns. Aldrei áður hefur íslenskur fulltrúi setið í stjórn sambandsins.

Áður en kosningaþingið hófst var íslensku sendinefndinni færð þau tíðindi að Ísland muni halda EuroGym árið 2020, en FSÍ og Reykjavíkurborg hafa unnið að umsókn um að halda mótið í töluverðan tíma.

EuroGym er fimleikahátíð fyrir 12-18 ára ungmenni. Hátíðin er haldin annað hvert ár og stendur yfir í viku. Hún mun fara fram víðsvegar á götum og torgum Reykjavíkurborgar helgina 11. - 19. júlí 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×