Skynsamlegt val Þorbjörn Þórðarson skrifar 30. nóvember 2017 11:00 Ein af stærstu áskorunum samfélagsins á 21. öldinni verður að takast á við umhverfisvandamál eins og hækkandi hitastig jarðarinnar og súrnun sjávar og heilbrigðisvandamál sem rekja má til lífsstílstengdra sjúkdóma. Hér má nefna ofþyngd, offitu, áunna sykursýki og hjartasjúkdóma. Umræða um lausnir á þessum vandamálum mun lita pólitíska orðræðu næstu ára. Boð og bönn stuða þá sem aðhyllast frjálslynd lífsviðhorf og leysa auk þess ekki öll vandamál. Til að sætta andstæð sjónarmið er mikilvægt að stjórnmálamenn sameinist um lausnir sem stuðla að skynsamlegu vali hjá einstaklingnum. Bæði þessi vandamál, hlýnun jarðar og heilbrigðisvandi vegna lífsstílstengdra sjúkdóma, eru afleiðingar af ákvörðunum einstaklingsins. Þau eiga það jafnframt sameiginlegt að draga má úr þeim með breyttum neysluvenjum. Ríkisvaldið getur með margvíslegum hætti ýtt undir skynsamlegt val. Mörg dæmi eru um slíkt nú þegar í íslenskri löggjöf. Hér má nefna ákvæði laga um tóbaksvarnir sem skylda verslanir til að koma tóbaki fyrir úr augsýn neytenda. Annað dæmi eru áfengislögin sem kveða á um að ÁTVR hafi einkaleyfi til smásölu áfengis hér á landi. Þá takmarka reglur sem settar voru með stoð í lögunum útsölutíma áfengis. Þegar umhverfisvernd er annars vegar má nefna skilagjald fyrir umbúðir og afslætti af opinberum gjöldum vegna innflutnings á rafmagnsbílum. Draga má úr sykurneyslu án skattahækkana með því að takmarka heimild verslana til að selja sælgæti við afgreiðslukassa eða umbuna verslunum fyrir að ýta undir skynsamlegt val með því að vera ekki með nammibar. Þetta má líka gera með því að setja stórar varúðarmerkingar á mjög sykraða vöru eins og gosdrykki, líkt og gert er með sígarettur og annað tóbak, og með því að takmarka sölu sykraðra gosdrykkja í ákveðinni stærð. Vandséð er hvernig margþættur umhverfisvandi eins og hlýnun jarðar verði leystur með skynsamlegu vali eingöngu. Ef við föllumst hins vegar á þá röksemd að neytendur geti haft áhrif með vali sínu þarf að innleiða hvata fyrir þá. Í mörgum tilvikum er það nú þegar gert í löggjöf vestrænna ríkja í gegnum skattlagningu. Rafmagnsbílar eru gott dæmi. Í fyllingu tímans þarf að stilla opinberum gjöldum af bensínknúnum bifreiðum upp þannig að það verði beinlínis órökrétt að kaupa slíka bíla í stað rafmagnsbíla. Bretar og Frakkar hafa þegar sett sér metnaðarfull markmið í þessa veru til að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans. Þessi ríki ætla að banna innflutning á bensín- og dísilbílum fyrir árið 2040. Ríki og sveitarfélög á Íslandi þurfa að innleiða hvata fyrir skynsamlegt val á enn víðtækari grunni en nú er gert. Setja þarf upp stóra gjaldfrjálsa hjólreiðastanda í sveitarfélögum til að auðvelda fólki að geyma reiðhjól sín á öruggan hátt. Þá þarf að fjölga gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir rafmagnsbíla á sama tíma og hækka þarf stöðumælagjald fyrir bíla sem eru knúnir áfram af jarðefnaeldsneyti. Aðgerðir sem þessar munu í fyllingu tímans skipta sköpum.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Ein af stærstu áskorunum samfélagsins á 21. öldinni verður að takast á við umhverfisvandamál eins og hækkandi hitastig jarðarinnar og súrnun sjávar og heilbrigðisvandamál sem rekja má til lífsstílstengdra sjúkdóma. Hér má nefna ofþyngd, offitu, áunna sykursýki og hjartasjúkdóma. Umræða um lausnir á þessum vandamálum mun lita pólitíska orðræðu næstu ára. Boð og bönn stuða þá sem aðhyllast frjálslynd lífsviðhorf og leysa auk þess ekki öll vandamál. Til að sætta andstæð sjónarmið er mikilvægt að stjórnmálamenn sameinist um lausnir sem stuðla að skynsamlegu vali hjá einstaklingnum. Bæði þessi vandamál, hlýnun jarðar og heilbrigðisvandi vegna lífsstílstengdra sjúkdóma, eru afleiðingar af ákvörðunum einstaklingsins. Þau eiga það jafnframt sameiginlegt að draga má úr þeim með breyttum neysluvenjum. Ríkisvaldið getur með margvíslegum hætti ýtt undir skynsamlegt val. Mörg dæmi eru um slíkt nú þegar í íslenskri löggjöf. Hér má nefna ákvæði laga um tóbaksvarnir sem skylda verslanir til að koma tóbaki fyrir úr augsýn neytenda. Annað dæmi eru áfengislögin sem kveða á um að ÁTVR hafi einkaleyfi til smásölu áfengis hér á landi. Þá takmarka reglur sem settar voru með stoð í lögunum útsölutíma áfengis. Þegar umhverfisvernd er annars vegar má nefna skilagjald fyrir umbúðir og afslætti af opinberum gjöldum vegna innflutnings á rafmagnsbílum. Draga má úr sykurneyslu án skattahækkana með því að takmarka heimild verslana til að selja sælgæti við afgreiðslukassa eða umbuna verslunum fyrir að ýta undir skynsamlegt val með því að vera ekki með nammibar. Þetta má líka gera með því að setja stórar varúðarmerkingar á mjög sykraða vöru eins og gosdrykki, líkt og gert er með sígarettur og annað tóbak, og með því að takmarka sölu sykraðra gosdrykkja í ákveðinni stærð. Vandséð er hvernig margþættur umhverfisvandi eins og hlýnun jarðar verði leystur með skynsamlegu vali eingöngu. Ef við föllumst hins vegar á þá röksemd að neytendur geti haft áhrif með vali sínu þarf að innleiða hvata fyrir þá. Í mörgum tilvikum er það nú þegar gert í löggjöf vestrænna ríkja í gegnum skattlagningu. Rafmagnsbílar eru gott dæmi. Í fyllingu tímans þarf að stilla opinberum gjöldum af bensínknúnum bifreiðum upp þannig að það verði beinlínis órökrétt að kaupa slíka bíla í stað rafmagnsbíla. Bretar og Frakkar hafa þegar sett sér metnaðarfull markmið í þessa veru til að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans. Þessi ríki ætla að banna innflutning á bensín- og dísilbílum fyrir árið 2040. Ríki og sveitarfélög á Íslandi þurfa að innleiða hvata fyrir skynsamlegt val á enn víðtækari grunni en nú er gert. Setja þarf upp stóra gjaldfrjálsa hjólreiðastanda í sveitarfélögum til að auðvelda fólki að geyma reiðhjól sín á öruggan hátt. Þá þarf að fjölga gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir rafmagnsbíla á sama tíma og hækka þarf stöðumælagjald fyrir bíla sem eru knúnir áfram af jarðefnaeldsneyti. Aðgerðir sem þessar munu í fyllingu tímans skipta sköpum.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.