Félög, flokkar, rjómasprautur Bergur Ebbi skrifar 27. október 2017 07:00 Eitt af því sem stjórnarskrá Íslands (og flestra annarra lýðræðisríkja) tryggir er félagafrelsið. Eru þau réttindi tryggð í 74. grein stjórnarskrárinnar en þar segir meðal annars: „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. […].“ Af öllum „frelsunum“ er félagafrelsið kannski ekki það sem rætt er mest um. Fólki er eflaust meira tíðrætt um tjáningarfrelsið, trúfrelsið eða um jafnan rétt kynja og kynþátta. Félagafrelsið er ekki Hollywood-vænt. Það yrði varla gerð bíómynd um baráttu fólks fyrir að hittast á fundum og drekka kaffi. Varla myndi nokkurt stjórnvald amast við því? Jú, auðvitað amast stjórnvöld oft við því. Einræðisríki eiga það flest sameiginlegt að takmarka starfsemi félaga. Í kommúnistaríkjum er stundum bara einn stjórnmálaflokkur í framboði: kommúnistaflokkurinn – og því eru kosningar og framkvæmd lýðræðis aðeins skrumskæling ef félagafrelsis nýtur ekki við. Í sumum fasistaríkjum er jafnvel gengið svo langt að leysa upp samkomur á götum úti eða í heimahúsum og koma í veg fyrir að fólk sameinist um hugsjónir sínar þó að í litlum mæli sé. Í gegnum söguna hafa stjórnmálaöfl verið kæfð í fæðingu og það sama á við um baráttuöfl í málefnum kvenfrelsis, hinsegin fólks og jaðarhópa. Grunnurinn í fasistatilburðum þarf nefnilega ekki að vera sá að banna fólki að láta í ljós skoðanir sínar heldur fremur að koma í veg fyrir að til verði vettvangur fyrir skoðanir. Í þessu samhengi er verndun félagafrelsis í raun mikilvægari en sjálft tjáningarfrelsið – þó engin þörf sé að stilla þessum réttindum upp sem keppinautum. Betra er að orða það sem svo að ef ekki væri hægt að mynda félög væri engin þörf á réttinum til að tjá sig, því það er erfitt að sá í grýtta jörð. Það þarf að gefa fólki færi á að byggja upp skoðanir sínar og stunda málefnavinnu, innan um jafningja, áður en hægt er að fara með þær inn í kúlnahríðina – ef svo má að orði komast. Ég velti upp þessu samhengi til að útskýra þróun í stjórnmálum undanfarin ár. Sjáið til. Í upplýsingabyltingu síðustu ára hefur um of verið einblínt á tjáningarfrelsi einstaklingsins, líkt og þar sé að finna hið eina sanna hreyfiafl. En einstaklingar breyta litlu einir og óstuddir. Það er fremur hinn nýtilkomni tæknilegi möguleiki á að stofna félög með litlum tilkostnaði sem er að gerbreyta stjórnmálum. Á hverjum degi eru stofnaðar nýjar grúppur eða hópspjöll um stjórnmál, menningu eða bara klassískt baktal og sá sem til stofnar hefur fullt vald yfir hverjum hann býður með í samtalið. Þetta vald, í hversu litlum mæli sem það er skammtað, er hið eina sanna breytingarafl stjórnmálanna. Vettvangurinn gefur skoðunum aukið vægi. Sú tæknilega athöfn að safna sögum saman undir ákveðnu merki felur í sér valdeflingu og eru #FreeTheNipple og #MeToo dæmi um það. Félagafrelsið er nýtt sem aldrei fyrr og séu hvers konar samfélagslegar grúppur teknar með má segja að í þjóðfélaginu séu tugþúsundir sem fylkja sér um málstað í ýmiss konar fylkingum og hópum, en myndi aldrei detta í hug að starfa á vegum stjórnmálaafls. Með réttu eða röngu, eru margir sem telja að stjórnmálaflokkar séu óþarfa milliliðir. Í kosningabaráttu fer ekki fram meiri málefnabarátta en á venjulegum degi. Áður fyrr gat kosningabarátta skerpt málefnalínurnar. En í dag bætir baráttan kannski litlu öðru ofan í hugmyndagraut samfélagsins en freti af gasfylltum rjóma úr gamalli rjómasprautu og nokkrum skeiðum af vöfflumixi. Það er enginn skortur á málefnum, ályktunum, viðhorfum og umræðum í þjóðfélaginu. Ef eitthvað er, þá er samfélagið útbólgið af slíku. Og þegar við það bætist að fjórflokkurinn er liðinn undir lok og allt að átta flokkar munu eiga sæti á Alþingi, þá getur myndast jarðvegur fyrir stækan popúlisma. Þá gæti farið svo að einhver stígi fram og lýsi því yfir að allt sé kjaftæði, það sé búið að ræða nóg, en nú sé kominn tími til framkvæmda. Við þekkjum þetta mætavel og vitum að þetta er síendurtekið stef í stjórnmálum. En látum ekki kosningar valda okkur vonbrigðum. Stjórnarmyndun verður erfið því stjórnmálaflokkarnir fá í raun lítið vald eftir kosningar. Valdið er kyrfilega komið til almennings, almennings sem getur stofnað grúppur og hópa og sameinað og sundrað málefnastarfi eftir hentugleika. Valdið er okkar, og því er engin þörf á að taka boði fyrsta popúlistans sem ætlar að bjarga okkur úr kakófóníunni. Mín kæra þjóð, ekki kyssa fyrsta gæjann sem býður þér á ball, þó að hann eigi gamla rjómasprautu. Þolinmæði er dyggð. Þolinmæði er passíft form hugrekkis. Kæra þjóð, þekktu vald þitt. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Birtist í Fréttablaðinu Kosningar 2017 Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Fasismi er að trenda – erum við að sofna á verðinum? Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun
Eitt af því sem stjórnarskrá Íslands (og flestra annarra lýðræðisríkja) tryggir er félagafrelsið. Eru þau réttindi tryggð í 74. grein stjórnarskrárinnar en þar segir meðal annars: „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. […].“ Af öllum „frelsunum“ er félagafrelsið kannski ekki það sem rætt er mest um. Fólki er eflaust meira tíðrætt um tjáningarfrelsið, trúfrelsið eða um jafnan rétt kynja og kynþátta. Félagafrelsið er ekki Hollywood-vænt. Það yrði varla gerð bíómynd um baráttu fólks fyrir að hittast á fundum og drekka kaffi. Varla myndi nokkurt stjórnvald amast við því? Jú, auðvitað amast stjórnvöld oft við því. Einræðisríki eiga það flest sameiginlegt að takmarka starfsemi félaga. Í kommúnistaríkjum er stundum bara einn stjórnmálaflokkur í framboði: kommúnistaflokkurinn – og því eru kosningar og framkvæmd lýðræðis aðeins skrumskæling ef félagafrelsis nýtur ekki við. Í sumum fasistaríkjum er jafnvel gengið svo langt að leysa upp samkomur á götum úti eða í heimahúsum og koma í veg fyrir að fólk sameinist um hugsjónir sínar þó að í litlum mæli sé. Í gegnum söguna hafa stjórnmálaöfl verið kæfð í fæðingu og það sama á við um baráttuöfl í málefnum kvenfrelsis, hinsegin fólks og jaðarhópa. Grunnurinn í fasistatilburðum þarf nefnilega ekki að vera sá að banna fólki að láta í ljós skoðanir sínar heldur fremur að koma í veg fyrir að til verði vettvangur fyrir skoðanir. Í þessu samhengi er verndun félagafrelsis í raun mikilvægari en sjálft tjáningarfrelsið – þó engin þörf sé að stilla þessum réttindum upp sem keppinautum. Betra er að orða það sem svo að ef ekki væri hægt að mynda félög væri engin þörf á réttinum til að tjá sig, því það er erfitt að sá í grýtta jörð. Það þarf að gefa fólki færi á að byggja upp skoðanir sínar og stunda málefnavinnu, innan um jafningja, áður en hægt er að fara með þær inn í kúlnahríðina – ef svo má að orði komast. Ég velti upp þessu samhengi til að útskýra þróun í stjórnmálum undanfarin ár. Sjáið til. Í upplýsingabyltingu síðustu ára hefur um of verið einblínt á tjáningarfrelsi einstaklingsins, líkt og þar sé að finna hið eina sanna hreyfiafl. En einstaklingar breyta litlu einir og óstuddir. Það er fremur hinn nýtilkomni tæknilegi möguleiki á að stofna félög með litlum tilkostnaði sem er að gerbreyta stjórnmálum. Á hverjum degi eru stofnaðar nýjar grúppur eða hópspjöll um stjórnmál, menningu eða bara klassískt baktal og sá sem til stofnar hefur fullt vald yfir hverjum hann býður með í samtalið. Þetta vald, í hversu litlum mæli sem það er skammtað, er hið eina sanna breytingarafl stjórnmálanna. Vettvangurinn gefur skoðunum aukið vægi. Sú tæknilega athöfn að safna sögum saman undir ákveðnu merki felur í sér valdeflingu og eru #FreeTheNipple og #MeToo dæmi um það. Félagafrelsið er nýtt sem aldrei fyrr og séu hvers konar samfélagslegar grúppur teknar með má segja að í þjóðfélaginu séu tugþúsundir sem fylkja sér um málstað í ýmiss konar fylkingum og hópum, en myndi aldrei detta í hug að starfa á vegum stjórnmálaafls. Með réttu eða röngu, eru margir sem telja að stjórnmálaflokkar séu óþarfa milliliðir. Í kosningabaráttu fer ekki fram meiri málefnabarátta en á venjulegum degi. Áður fyrr gat kosningabarátta skerpt málefnalínurnar. En í dag bætir baráttan kannski litlu öðru ofan í hugmyndagraut samfélagsins en freti af gasfylltum rjóma úr gamalli rjómasprautu og nokkrum skeiðum af vöfflumixi. Það er enginn skortur á málefnum, ályktunum, viðhorfum og umræðum í þjóðfélaginu. Ef eitthvað er, þá er samfélagið útbólgið af slíku. Og þegar við það bætist að fjórflokkurinn er liðinn undir lok og allt að átta flokkar munu eiga sæti á Alþingi, þá getur myndast jarðvegur fyrir stækan popúlisma. Þá gæti farið svo að einhver stígi fram og lýsi því yfir að allt sé kjaftæði, það sé búið að ræða nóg, en nú sé kominn tími til framkvæmda. Við þekkjum þetta mætavel og vitum að þetta er síendurtekið stef í stjórnmálum. En látum ekki kosningar valda okkur vonbrigðum. Stjórnarmyndun verður erfið því stjórnmálaflokkarnir fá í raun lítið vald eftir kosningar. Valdið er kyrfilega komið til almennings, almennings sem getur stofnað grúppur og hópa og sameinað og sundrað málefnastarfi eftir hentugleika. Valdið er okkar, og því er engin þörf á að taka boði fyrsta popúlistans sem ætlar að bjarga okkur úr kakófóníunni. Mín kæra þjóð, ekki kyssa fyrsta gæjann sem býður þér á ball, þó að hann eigi gamla rjómasprautu. Þolinmæði er dyggð. Þolinmæði er passíft form hugrekkis. Kæra þjóð, þekktu vald þitt. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun