Lýsing Guardian á sigri íslenska liðsins var ansi skrautleg. „Björk, Sigur Rós, og stóri gaurinn úr virkilega góðu en drungalegu dramaþáttunum á BBC 4, slakið bara á og dáist að þessum úrslitum,“ segir í lýsingunni en stóri gaurinn úr drungalegu en góðu dramaþáttunum er að sjálfsögðu leikarinn Ólafur Darri Ólafsson og verið að vísa í leik hans í Ófærð sem sýnd var undir enska heitinu Trapped á BBC 4 á Englandi.
Breska ríkisútvarpið BBC gerir grín að fyrrverandi landsliðsþjálfara enska karlalandsliðsins, Roy Hodgson, sem lutu í lægra haldi fyrir íslenska liðinu í sextán liða úrslitum á EM í fótbolta í fyrra. Úrslit sem þóttu ansi skammarleg fyrir Breta og þá sérstaklega þjálfarann.

„Ísland er með yfirhöndina þegar það mætir Kósóvó í síðasta leiknum, á meðan Króatía þarf að fara til Úkraínu í erfiðan leik,“ skrifar Washington Post um stöðuna í riðli Íslands. Washington Post bendir á að komist Ísland í úrslitakeppni HM verði það fámennasta þjóðin til að gera það.