Fastir pennar

Gott og vont íhald

Þórlindur Kjartansson skrifar
Það er stundum ekki fyrr en maður heyrir sjálfan sig þylja einhverja visku yfir sínum eigin börnum að maður áttar sig á því að kannski hlustaði maður betur á mömmu sína en maður var tilbúinn að viðurkenna í æsku. Þannig hafa frasar eins og „það spyr þig enginn hversu lengi þú varst að þessu, bara hvort þetta er vel gert“ og „gerðu þetta með glöðu geði, eða slepptu því“ öðru hverju hrokkið ósjálfrátt upp úr mér við mín eigin börn.

Reyndar hef ég síðar komist að því að það var ekki endilega rétt hjá mömmu að enginn spyrði hversu lengi það tekur mann að gera hlutina. Þvert á móti, það er mjög algengt að fólk velti því fyrir sér. Staðhæfingin er því röng en samt svo sönn. Í henni felst að maður eigi að hafa persónulegan metnað til þess að skila alltaf góðu verki, en láta ekki væntingar eða athugasemdir annarra slá sig út af laginu.

Og hvað það varðar að sleppa hlutunum ef maður ætlaði ekki að gera þá með glöðu geði—þá var það alltaf meira í nösunum á mömmu. Sá valkostur að sleppa því sem um var beðið kom í raun aldrei til greina, þannig að eftir stóð sá kostur að toga skeifuna af andlitinu og hefjast handa. Og það var líka hárrétt lexía. Jafnvel fábreytilegustu verkefni hætta að vera leiðinleg þegar maður leyfir sér ekki að væla undan þeim.

Önnur verðmæt lexía, sem einhvern veginn síaðist inn, felst í þeirri yfirlýstu uppeldisstefnu mömmu að vilja frekar ala upp furðuleg börn heldur en heilaþvegin. Í því felst virðing fyrir einstaklingnum og einlægur skilningur á því að fólk eigi heimtingu á því að fá að mæta sinni hamingju og harmi á eigin forsendum.

Gott íhald

Hugsanlega hefur enginn tími í veraldarsögunni borið með sér eins miklar og hraðar breytingar á daglegum lifnaðarháttum manna eins og sá sem liðinn er frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þó er það þannig þegar maður skoðar dagblöð og tímarit frá þeim tímum þegar kynslóð foreldra minna fæddist, að þá kemur eiginlega mest á óvart hversu margt er óbreytt. Í kringum 22. september 1947 voru Rússar og Bandaríkjamenn að rífast og kalla hvorir aðra stríðsæsingamenn á þingi Sameinuðu þjóðanna, kjaramálin voru í brennidepli og íhaldsmenn og kommúnistar sendu hvorir öðrum eiturpillur í gegnum leiðarasíður blaðanna. Flestar fréttir frá þeim tíma gætu staðið í blöðunum í dag án þess að þær þættu ótrúlegar. Aðra sögu er að segja um auglýsingarnar, sem væru augljóslega úr sér gengnar. Semsagt—allt sem snýr að mannlegri hegðun er að mestu leyti óbreytt, þótt umhverfi daglegs lífs hafi gjörbreyst.

Þannig geta mörg af heilræðum fyrri kynslóða gengið óbreytt niður til afkomenda og verið öllum til gagns. Það er góð íhaldssemi að halda á lofti verðmætum gildum sem þjónað hafa öllum vel sem tileinkað sér hafa. Þetta á til dæmis við um vandvirkni, vinnugleði og umburðarlyndi.

Vont íhald

Auðvitað erfist líka alls konar vitleysa og ranghugmyndir í gegnum kynslóðirnar. Og þess vegna er íhaldssemi ekki fortakslaust dyggð. Hún er bara dyggð þegar hún stuðlar að betra lífi fyrir einstaklinga og samfélög. Í íhaldsseminni getur líka falist varðstaða um ranglæti, græðgi, valdníðslu og ofbeldi—eða heiftúðlegir fordómar og tortryggni.

Það mun til dæmis hafa gerst í æsku móður minnar að „merkilegur“ maður í bænum hlaut dóm fyrir einhvers konar fjármálamisferli og um það var fjallað í blöðunum. Þá var séð til þess að þeim blöðum væri ekki dreift í heimahögum merkismannsins svo að ekki félli kusk á flibba hans, nema þá í fjarska.

Slík íhaldssemi hefur verið á hröðu undanhaldi undanfarna áratugi—meira að segja hjá langflestum sem myndu pólitískt flokkast sem „íhaldsmenn“. Þessar mikilvægu viðhorfsbreytingar hafa átt sér stað í fullkominni sátt milli allra stjórnmálaflokka, hvar svo sem þeir staðsetja sig á hægri-vinstri ásnum og allar vísa þær í átt til betra og réttlátara samfélags þótt sumir vilji hreyfa sig hraðar en aðrir.

Innistæðulaus heift

Þótt yngri kynslóðir hafi lært mikið af þeim eldri í gegnum söguna þá höfum við þó borið gæfu til þess að uppgötva og læra sitthvað nýtt líka. Ísland er opnara, umburðarlyndara og réttlátara samfélag nú en það var fyrir sjötíu árum. Það er þess vegna lítil innistæða fyrir því að viðhalda þeirri illúðlegu heift sem alin hefur verið upp í pólitíkinni milli ólíkra stjórnmálaflokka, og kannski ekki síður innan þeirra.

Kosningabaráttan sem nú hefur verið boðuð er líkleg til þess að verða miklu ljótari en raunveruleg efni standa til og skila þeim eina árangri að dýpka tortryggnina á milli þess ágæta fólks sem að öllu jöfnu ætti að geta starfað saman af sæmilegum heiðarleika. Þannig að maður gengur kannski ekki beinlínis með glöðu geði að kjörborðinu að þessu sinni.






×