Eftirdrunur nasismans Þorvaldur Gylfason skrifar 28. september 2017 07:00 Eitt helzta vígorð Donalds Trump í kosningabaráttu hans í fyrra var „America first“. Áður höfðu menn ekki heyrt bandarískan forsetaframbjóðanda tala eins og ofvaxinn þjóðrembill í smáríki sem á undir högg að sækja. Vígorðið „America first“ var sótt til flugkappans Charles Lindbergh sem flaug fyrstur manna einsamall og viðstöðulaust yfir Atlantshafið, studdi Adolf Hitler og hataði gyðinga. Þetta var bara byrjunin. Trump forseti sækir margar fyrirmyndir leynt og ljóst til nasista og fasista. Óvildin í garð innflytjenda, virðingarleysið gagnvart gyðingum, þ.m.t. kæruleysislegt tal um helförina, hvatning til ofbeldis og erlendra njósna um andstæðinga og endalausar lygar ásamt öðru bera vitni. Þegar málflutningur forsetans og manna hans er skoðaður, þegar ummerkin hrannast upp, þegar fasisminn er kominn fast upp að hlið okkar, þá skiptir sagan máli eins og Timothy Snyder prófessor í Yale-háskóla lýsir í nýrri metsölubók sinni On Tyranny (Um harðstjórn). Þá skiptir það máli að faðir Trumps var handtekinn á fundi hjá Ku Klux Klan eins og ég rifjaði upp á þessum stað fyrir viku. Vígorðið „Íslandi allt“ sem fv. forsætisráðherra skreytti sig með er sömu ættar.Ummerkin hrannast upp Við eðlilegar aðstæður ætti upprifjun á þeim hörmungum sem þýzkir nasistar, ítalskir fasistar og bandamenn þeirra í Japan kölluðu yfir heiminn á sinni tíð ekkert erindi inn í umræður um stjórnmál. Það stafar einkum af því að Þjóðverjar hafa gert svo rækilega upp við fortíð sína að sómi er að þótt nú syrti aftur í álinn. Mestan ugg vekur ástandið í Bandaríkjunum eins og sakir standa en þar telja margir rétt og nauðsynlegt að draga forsetann fyrir landsdóm vegna meintra lögbrota og aðrir hóta borgarastyrjöld, jafnvel í guðs nafni, verði það gert. Hvernig gat þetta gerzt í landi sem þar til nýlega taldist vera óskoraður leiðtogi hins frjálsa heims? Bandarísk stjórnmál eru í uppnámi m.a. vegna þess að peningarnir hafa tekið þar völdin í boði Hæstaréttar sem nam árið 2010 brott allar takmarkanir á fjárframlög til stjórnmálastarfs. Lýðræði vék fyrir auðræði og stefnir í þjófræði sjái menn sig ekki um hönd, segir Timothy Snyder í bók sinni. Honum sýnast Bandaríkin vera á sömu leið og Rússland. Fárið breiðist út.Ísland stóðst prófið, Rússland féll Tilburða í átt til fasisma hefur einnig orði vart á Íslandi. Tilraun ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins til að setja fjölmiðlalög til höfuðs Fréttablaðinu og Stöð 2 var eftir á að hyggja aðför að frjálsri fjölmiðlun í fasískum anda. Aðförina bar upp á sama tíma og Vladímir Pútín forseti Rússlands notaði svipaðar aðferðir til að loka einkasjónvarpsstöðvum þar í landi til að styrkja stöðu sína og hefta frelsi fjölmiðla. Munurinn var sá að hér heima tókst að hrinda aðförinni. Ísland stóðst prófið sem Rússland féll á. Mikinn þátt í því átti Þjóðarhreyfingin undir forustu Ólafs Hannibalssonar blaðamanns, Hans Kristjáns Árnasonar annars stofnanda Stöðvar 2, sr. Arnar Bárðar Jónssonar og Einars Árnasonar hagfræðings. Fyrir tilstilli þeirra m.a. sköpuðust skilyrði til þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar 2004. Ríkisstjórnin gafst upp. Nokkru síðar tóku „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins og „gasljósameistarar“ að láta að sér kveða. Hvorugt orðið er skráð í Orðabók Háskóla Íslands en þau lýsa þeim hópi manna sem ræðst með skipulegum óhróðri gegn andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Áður hafði Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins lýst þessum aðferðum úr návígi og kennt þær eftirminnilega við „andrúmsloft dauðans“. Nýtt dæmi er harðar árásir á Smára McCarthy alþingismann fyrir orð hans um afhjúpun leynimakks forustumanna Sjálfstæðisflokksins varðandi valinkunna meðmælendur í máli tveggja dæmdra kynferðisbrotamanna. Nú er komið í ljós að hluti skjalanna sem um er að ræða virðist falsaður og dómsmálaráðuneytið hefur orðið uppvíst um „forkastanleg vinnubrögð“. Og þá er blásið í herlúðra gegn stjórnarandstöðuþingmanni sem hefur auk fjölmargra annarra fjallað um málið. Árásir forsetaframbjóðanda Sjálfstæðisflokksins á Guðna Th. Jóhannesson fyrir forsetakosningarnar í fyrra vegna meintrar afstöðu Guðna til kröfunnar um að Íslendingar tækju að hluta ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans voru angi á sama meiði. Svipaðar árásir bergmála á samfélagsmiðlum flesta daga eins og um skipulega aðför sé að ræða að rússneskri fyrirmynd. Upplognar fullyrðingar Donalds Trump um að Obama forseti væri fæddur erlendis og væri því ólögmætur forseti voru sömu ættar. Og nú eru íslenzkir álitsgjafar sakaðir um að bera fréttir af stjórnmálaspillingu á Íslandi í erlenda fjölmiðla eins og útlendingar séu ekki fullfærir um að mynda sér sjálfstæða skoðun á málinu.Ær og kýr Föðurlandssvikabrigzl og valdarán eru ær og kýr fasista enn sem fyrr. Ísland þarf að gæta sín á fárinu sem ríður nú yfir nálæg lönd. Framganga Sjálfstæðisflokksins og taglhnýtinga hans gagnvart nýju stjórnarskránni sem 67% kjósenda lýstu stuðningi við 2012 er skýr viðvörun. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Halldór 28.12.2024 Halldór Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Eitt helzta vígorð Donalds Trump í kosningabaráttu hans í fyrra var „America first“. Áður höfðu menn ekki heyrt bandarískan forsetaframbjóðanda tala eins og ofvaxinn þjóðrembill í smáríki sem á undir högg að sækja. Vígorðið „America first“ var sótt til flugkappans Charles Lindbergh sem flaug fyrstur manna einsamall og viðstöðulaust yfir Atlantshafið, studdi Adolf Hitler og hataði gyðinga. Þetta var bara byrjunin. Trump forseti sækir margar fyrirmyndir leynt og ljóst til nasista og fasista. Óvildin í garð innflytjenda, virðingarleysið gagnvart gyðingum, þ.m.t. kæruleysislegt tal um helförina, hvatning til ofbeldis og erlendra njósna um andstæðinga og endalausar lygar ásamt öðru bera vitni. Þegar málflutningur forsetans og manna hans er skoðaður, þegar ummerkin hrannast upp, þegar fasisminn er kominn fast upp að hlið okkar, þá skiptir sagan máli eins og Timothy Snyder prófessor í Yale-háskóla lýsir í nýrri metsölubók sinni On Tyranny (Um harðstjórn). Þá skiptir það máli að faðir Trumps var handtekinn á fundi hjá Ku Klux Klan eins og ég rifjaði upp á þessum stað fyrir viku. Vígorðið „Íslandi allt“ sem fv. forsætisráðherra skreytti sig með er sömu ættar.Ummerkin hrannast upp Við eðlilegar aðstæður ætti upprifjun á þeim hörmungum sem þýzkir nasistar, ítalskir fasistar og bandamenn þeirra í Japan kölluðu yfir heiminn á sinni tíð ekkert erindi inn í umræður um stjórnmál. Það stafar einkum af því að Þjóðverjar hafa gert svo rækilega upp við fortíð sína að sómi er að þótt nú syrti aftur í álinn. Mestan ugg vekur ástandið í Bandaríkjunum eins og sakir standa en þar telja margir rétt og nauðsynlegt að draga forsetann fyrir landsdóm vegna meintra lögbrota og aðrir hóta borgarastyrjöld, jafnvel í guðs nafni, verði það gert. Hvernig gat þetta gerzt í landi sem þar til nýlega taldist vera óskoraður leiðtogi hins frjálsa heims? Bandarísk stjórnmál eru í uppnámi m.a. vegna þess að peningarnir hafa tekið þar völdin í boði Hæstaréttar sem nam árið 2010 brott allar takmarkanir á fjárframlög til stjórnmálastarfs. Lýðræði vék fyrir auðræði og stefnir í þjófræði sjái menn sig ekki um hönd, segir Timothy Snyder í bók sinni. Honum sýnast Bandaríkin vera á sömu leið og Rússland. Fárið breiðist út.Ísland stóðst prófið, Rússland féll Tilburða í átt til fasisma hefur einnig orði vart á Íslandi. Tilraun ríkisstjórnar undir forustu Sjálfstæðisflokksins til að setja fjölmiðlalög til höfuðs Fréttablaðinu og Stöð 2 var eftir á að hyggja aðför að frjálsri fjölmiðlun í fasískum anda. Aðförina bar upp á sama tíma og Vladímir Pútín forseti Rússlands notaði svipaðar aðferðir til að loka einkasjónvarpsstöðvum þar í landi til að styrkja stöðu sína og hefta frelsi fjölmiðla. Munurinn var sá að hér heima tókst að hrinda aðförinni. Ísland stóðst prófið sem Rússland féll á. Mikinn þátt í því átti Þjóðarhreyfingin undir forustu Ólafs Hannibalssonar blaðamanns, Hans Kristjáns Árnasonar annars stofnanda Stöðvar 2, sr. Arnar Bárðar Jónssonar og Einars Árnasonar hagfræðings. Fyrir tilstilli þeirra m.a. sköpuðust skilyrði til þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar 2004. Ríkisstjórnin gafst upp. Nokkru síðar tóku „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins og „gasljósameistarar“ að láta að sér kveða. Hvorugt orðið er skráð í Orðabók Háskóla Íslands en þau lýsa þeim hópi manna sem ræðst með skipulegum óhróðri gegn andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Áður hafði Styrmir Gunnarsson ritstjóri Morgunblaðsins lýst þessum aðferðum úr návígi og kennt þær eftirminnilega við „andrúmsloft dauðans“. Nýtt dæmi er harðar árásir á Smára McCarthy alþingismann fyrir orð hans um afhjúpun leynimakks forustumanna Sjálfstæðisflokksins varðandi valinkunna meðmælendur í máli tveggja dæmdra kynferðisbrotamanna. Nú er komið í ljós að hluti skjalanna sem um er að ræða virðist falsaður og dómsmálaráðuneytið hefur orðið uppvíst um „forkastanleg vinnubrögð“. Og þá er blásið í herlúðra gegn stjórnarandstöðuþingmanni sem hefur auk fjölmargra annarra fjallað um málið. Árásir forsetaframbjóðanda Sjálfstæðisflokksins á Guðna Th. Jóhannesson fyrir forsetakosningarnar í fyrra vegna meintrar afstöðu Guðna til kröfunnar um að Íslendingar tækju að hluta ábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans voru angi á sama meiði. Svipaðar árásir bergmála á samfélagsmiðlum flesta daga eins og um skipulega aðför sé að ræða að rússneskri fyrirmynd. Upplognar fullyrðingar Donalds Trump um að Obama forseti væri fæddur erlendis og væri því ólögmætur forseti voru sömu ættar. Og nú eru íslenzkir álitsgjafar sakaðir um að bera fréttir af stjórnmálaspillingu á Íslandi í erlenda fjölmiðla eins og útlendingar séu ekki fullfærir um að mynda sér sjálfstæða skoðun á málinu.Ær og kýr Föðurlandssvikabrigzl og valdarán eru ær og kýr fasista enn sem fyrr. Ísland þarf að gæta sín á fárinu sem ríður nú yfir nálæg lönd. Framganga Sjálfstæðisflokksins og taglhnýtinga hans gagnvart nýju stjórnarskránni sem 67% kjósenda lýstu stuðningi við 2012 er skýr viðvörun. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.