Skoðun

Refsingin mikla

Haukur Hauksson skrifar
Einu sinni var ball í Borgarnesi og var margt gesta, drykkja var talsverð, keyptu menn aðallega drykki af barnum og voru með volga vasapela og buðu með sér viskí, vodka og kláravín.

Snæfellingar létu sig ekki vanta og þegar líða var tekið á brutust út slagsmál mikil á milli Ólsara og Sandara, að sjálfsögðu út af kvenmanni – Ínu að nafni, ljósri yfirlitum og fagurri mjög. Sandarar kölluðu hana reyndar alltaf Níu, jafnvel Nýju, Ína sjálf hélt að um uppnefni væri að ræða en Sandarar lofuðu að kynna sér betur bakgrunn hennar og sögu og bera nafnið rétt fram. Skemmst er frá því að segja að Ína fór með Ólsara heim af ballinu og eiga þau nú börn og buru.

Mikill hiti var í Söndurum vegna þessa og ákváðu þeir að refsa Ólsurum eins grimmilega og hægt væri, nú voru góð ráð dýr, settir voru í gang miklir verkferlar til að standa í lappirnar og lúffa ekki fyrir Ólsurum. Stóri dómur kom eftir miklar vangaveltur, skrif og hringingar; jafnvel Suður: Nú látum við alla vita hve þessir Ólsarar eru mikil illmenni og hættum að selja þeim mjólk, þeir hljóta að byrja að rífast við Ínu og skilja við hana, það er þó skárra að hún sé einstæð móðir en gift þessum Ólsara. Það er jú alltaf einhver fórnarkostnaður.

Í stuttu máli brást þetta, Ólsarar byrjuðu að kaupa mjólk af Hólmurum og nú blómstrar mjólkurbú Stykkishólms en það á Hellissandi er í miklum vandræðum og á barmi gjaldþrots og þeir fyrir Sunnan vilja ekkert kaupa.

Þetta gengur svo langt að byrjað er að uppnefna þá á Hellissandi „sjálfsrefsara“ og masókista.

Menn vona hins vegar að ný og mjög öflug markaðsherferð úti í heimi skili tilætluðum árangri, áður en um seinan er.

Höfundur er leiðsögurmaður og magister í alþjóðamálum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×