Viðskipti erlent

Nordea-bankinn flytur höfuðstöðvarnar frá Svíþjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Casper von Koskull, bankastjóri Nordea-bankans.
Casper von Koskull, bankastjóri Nordea-bankans. Vísir/AFP
Stjórn Nordea-bankans, eins stærsta banka Norðurlanda, ákvað í dag að flytja höfuðstöðvar sínar frá Stokkhólmi og til Finnlands. Virði hlutabréfa bankans hafa hækkað eftir að tilkynnt var um ákvörðunina nú síðdegis.

Í tilkynningu frá bankanum segir að starfsemi bankans á öllum Norðurlöndunum verði annars óbreytt og að takmarkaður fjöldi starfa, beintengd höfuðstöðvunum, muni flytjast til Finnlands.

Viðskiptavinir munu ekki taka eftir nokkrum breytingum og bankinn muni áfram greiða skatta í öllum markaðslöndum sínum á Norðurlöndum.

Umræða um flutning höfuðstöðvanna hófst fyrir um hálfu ári þegar sænska ríkisstjórnin kynnti tillögur um hærri skattgreiðslur banka í landinu. Stjórn bankans hótaði þá að flytja höfuðstöðvarnar og segir í frétt SVT að stjórnvöld hafi í kjölfarið mildað tillögur sínar. Það virðist þó ekki hafa skilað árangri ef marka má ákvörðun stjórnar bankans.

Viðskiptavinir bankans telja um 10 milljónir á Norðurlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×