Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin er ÍBV varð bikarmeistari í annað skiptið | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eyjakonur urðu bikarmeistarar í knattspyrnu í annað skiptið í sögu félagsins eftir 3-2 sigur á Stjörnunni í Laugardalnum í dag en það var Sigríður Lára Garðarsdóttir sem tryggði ÍBV titilinn með vítaspyrnu í framlengingu.

Er ÍBV því handhafi bikarmeistaratitlanna í bæði kvenna- og karlaflokki.

Eyjakonur komust yfir snemma leiks með marki frá Cloé Lacassse eftir mistök í vörn Stjörnunnar en Garðbæingar svöruðu með tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks.

Agla María Albertsdóttir skoraði á 41. mínútu leiksins og tveimur mínútum síðar bætti Harpa Þorsteinsdóttir við marki.

Leiddi Stjarnan því 2-1 allt þar til á 89. mínútu þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir jafnaði metin af stuttu færi og þurfti því að grípa til framlengingar.

Þar krækti Cloé Lacassse í er virtist vera afar ódýra vítaspyrnu en Sigríður Lára Garðarsdóttir fór á vítapunktinn og skoraði sigurmark leiksins.

Myndband af þessu öllu saman má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×