Sport

Fjórir Íslendingar inn á topp tíu eftir fyrsta dag heimsleikanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Annie Mist Þórisdóttir sigraði á heimsleikunum árið 2011 og 2012. Hún er sá einstaklingur sem oftast hefur unnið grein á leikunum.
Annie Mist Þórisdóttir sigraði á heimsleikunum árið 2011 og 2012. Hún er sá einstaklingur sem oftast hefur unnið grein á leikunum. Mynd/Fésbókarsíða The CrossFit Games
Þrjár greinar fóru fram á fyrsta degi heimsleikanna í crossfit í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum og eru fjórir íslenskir keppendur í toppbaráttunni eftir fyrsta daginn af fjórum.

Björgvin Karl Guðmundsson stendur best að vígi af íslenska keppnisfólkinu en hann er í fjórða sætinu í karlaflokki. Björgvin Karl er með 222 stig eða 38 stigum minna en Matthew Fraser sem er í toppsætinu. Björgvin er aftur á móti 24 stigum frá öðru sætinu en þar situr Jonne Koski.

Björgvin Karl endaði í 4. sæti í fyrstu grein (hlaup-sund-hlaup), í 5. sæti í annarri grein (hjólakross) og svo í 11. sætinu í þriðju og síðustu grein dagsins sem hét Amanda .45. Þar var á ferðinni tímagrein með 13-11-9-7-5 endurtekningum af upphífingum og hnébeygjum.

Þrjár íslenskar konur eru líka inn á topp tíu og sú fjórða situr síðan ekki langt á eftir í sextánda sætinu eftir þessar fyrstu þrjár greinar.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er efst af íslensku stelpunum en hún er í 5. til 6. sæti ásamt Tennil Reed-Beuerlein. Sara er með 204 stig en hún varð í 7. sæti í fyrstu grein (hlaup-sund-hlaup), í 6. sæti í annarri grein (Hjólakross) og svo í 12. sætinu í þriðju og síðustu grein dagsins sem voru upphífingar og hnébeygjur.   

Tia-Clair Toomey og Samantha Briggs eru jafnar í efsta sætinu með 262 stig hvor eða 58 stigum meira en Ragnheiður Sara.

Katrín Tanja Davíðsdóttir er í 8. sæti með 172 stig sem þýðir að ríkjandi meistari er þegar orðin 90 stigum á eftir efstu konum. Katrín Tanja  var bara í 44. sæti í þriðju grein dagsins sem byggðist upp á upphífingum og hnébeygjum.  Annie Mist Þórisdóttir er síðan í 10. sæti og Þuríður Erla Helgadóttir er í 16. sætinu.






Tengdar fréttir

Sara: Má ekkert borða af þessu góða dóti

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir hefur í kvöld sína þriðju tilraun til að vera hraustasta kona heims en þá hefst keppni á heimsleikunum í crossfit í Madison í Wisconsin fylki í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×