Fótbolti

Fanndís: Þessar nýju stelpur eru betri og tilbúnari en ég var

Tómas Þór Þórðarson í Ermelo skrifar
Þrír ungir EM-nýliðar eru í íslenska hópnum á EM 2017 í fótbolta. Tveir þeirra; Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður úr Breiðabliki, og Agla María Albertsdóttir, framherji úr Stjörnunni, unnu sér sæti í hópnum á lokametrunum.

Báðar voru í byrjunarliðinu á móti Írlandi og Brasilíu í síðustu vináttuleikjum Íslands fyrir EM og þær gerðu nóg til að heilla Frey Alexandersson.

Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Breiðabliks, var sjálf ung og efnileg þegar hún fór á fyrsta Evrópumótið sem íslenska liðið komst á fyrir átta árum síðan en hún segir þessar nýju stelpur betri en hún var.

„Ingibjörg kom inn á móti Brasilíu eins og hún væri búin að spila 100 landsleiki. Þegar ég fór fyrst fékk ég að fara inn á þegar það voru þrjár mínútur eftir og var bara "vííí" geðveikt gaman. Mér finnst þær betri og tilbúnari í þetta. Þær fá líka stærra hlutverk,“ segir Fanndís.

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson tók undir með Fanndísi að þessir nýliðar í dag fá stærra hlutverk en hann vildi þó hrósa eldri leikmönnum og þá sérstaklega Fanndísi fyrir hennar framlag til nýliðanna.

„Mig langar að hrósa eldri leikmönnunum fyrir þetta. Ég átti alltaf eftir að klappa þér á bakið Fanndís fyrir þetta. Eftir leikinn á móti Brasilíu þá var Fanndís fyrst til að stíga upp og hrósa Öglu Maríu í viðtölum fyrir sinn leik og hvað hún var að gera,“ segir Freyr.

„Stuðningurinn sem þessar eldri stelpur hafa sýnt þeim yngri bæði innan vallar og í undirbúningi og í kringum allt sem við erum að gera sýnir hvað við erum með flotta og sterka karaktera við höfum.“

„Ungu stelpurnar hafa vissulega fengið stærra hlutverk en það er ekki bara þjálfarateyminu og vinnubrögðum okkar að þakka heldur frekar leikmönnunum. Eldri leikmennirnir eiga mikið hrós skilið og þeir mega vita það,“ segir Freyr Alexandersson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×