Fótbolti

Sænsku stelpurnar enduðu ellefu leikja taphrinu á móti Þýskalandi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Babett Peter og Stina Blackstenius í baráttunni í leiknum í kvöld.
Babett Peter og Stina Blackstenius í baráttunni í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Svíþjóð og Þýskaland gerðu markalaust jafntefli í kvöld í seinni leik dagsins á Evrópumóti kvenna í fótbolta en þetta var fyrsti leikur liðanna í B-riðli keppninnar í Hollandi.

Báðar þjóðir ætla sér stóra hluti á mótinu og það var ekkert gefið eftir í leiknum í kvöld. Leikurinn bauð upp á nokkur færi en hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið.

Linda Sembrant komst næst því að skora fyrir Svía en hún átti skallafæri í báðum hálfleikjum. Mandy Islacker komst næst því að skora fyrir þýska liðið.

Þýska liðið hefur sett stefnuna á það að vinna sjöunda Evrópumeistaratitilinn í röð en þýsku stelpurnar hafa unnið allar Evrópukeppnir kvenna frá og með árinu 1995.

Þrátt fyrir að sænska liðið hafi ekki náð að vinna leikinn í kvöld var þetta langþráð stig á móti þýska risanum.

Þýskaland hafði nefnilega unnið allar ellefu viðureignir þjóðanna á stórmótum þar á meðal í undanúrslitum EM fyrir fjórum árum og í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Ríó í fyrra.

Eftir þessi úrslit eru Rússar á toppi riðilsins með þrjú stig eftir óvæntan 2-1 sigur á Ítalíu fyrr í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×