Fótbolti

Fyrirliði Frakka: Þurfum að vinna litlu úrslitaleikina okkar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wendy Renard, fyrirliði Frakklands.
Wendy Renard, fyrirliði Frakklands. Vísir/Getty
Það verður við ramman reip að draga fyrir stelpurnar okkar í Tilburg í kvöld enda franska landsliðið eitt það allra besta í heimi. Það hefur unnið sjö leiki og gert tvö jafntefli á árinu en ekki tapað einum einasta leik. Það vann She Believes-mótið sem er líklega sterkasta æfingamót ársins.

„Við erum vissulega ósigraðar í ár en þetta voru bara vináttuleikir. Það tengist ekkert því sem bíður okkar í leiknum á móti Íslandi. Treystið því samt að við verðum tilbúnar. Það mikilvæga á árinu er þessi fyrsti leikur á EM, ekki einhverjir vináttulandsleikir,“ sagði Wendy Renard, fyrirliði Frakklands, á blaðamannafundi í gær.

Þær frönsku hafa verið með eitt besta lið heims í nokkur ár en hafa aldrei náð að taka stóra skrefið og spilað til úrslita á stórmóti.

„Það er rétt að við höfum verið að falla út of snemma á mótum. Við vitum að það verður erfitt að vinna þetta Evrópumót. Við erum samt ekkert að spá í það núna heldur að vinna litlu úrslitaleikina á móti Íslandi, Sviss og Austurríki í riðlakeppninni,“ segir Renard.

Olivier Echouafni, þjálfari Frakka, stýrir liðinu í fyrsta sinn á stórmóti á morgun og hann varar við vanmati hjá sínum stelpum.

„Við virðum íslenska liðið. Það spilaði vel í undankeppninni og var fyrir ofan Skotland í riðlinum. Við búumst við líkamlega erfiðum leik gegn liði sem hleypur mikið og er með góða leikmenn í góðum liðum. Ég vil fá baráttu hjá mínum stelpum á móti Íslandi,“ sagði þjálfarinn.

Ekki missa af neinu tengdu stelpunum okkar á EM 2017 í Hollandi. Íþróttadeild 365 er með öflugt teymi fréttamanna á mótinu og færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af íslenska liðinu. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×