Fótbolti

Maria var með tárin í augunum fyrir fyrsta leikinn á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
María spilaði á miðjunni gegn Hollandi og stóð fyrir sínu.
María spilaði á miðjunni gegn Hollandi og stóð fyrir sínu. vísir/getty
María Þórisdóttir segist hafa verið með tárin í augunum fyrir leik Noregs og Hollands á EM kvenna í fótbolta á sunnudaginn.

María glímdi lengi við erfið meiðsli en sneri aftur á völlinn fyrr á þessu ári og er nú komin á stærsta sviðið.

„Ég var með tárin í augunum áður en leikurinn hófst. Síðustu ár hafa verið erfið,“ sagði María í samtali við Dagbladet.

María var í byrjunarliði Noregs og spilaði á miðjunni en ekki í vörninni eins og vanalega. Hún átti góðan leik og fékk hrós frá landsliðsþjálfaranum Martin Sjögren eftir leikinn sem Noregur tapaði 1-0.

Feðginin Þórir og María.vísir/ernir
Valdi handboltann

María er sem kunngt er dóttir Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta. María æfði lengi handbolta og litlu munaði að hún hefði endað í þeirri íþrótt.

„Ég valdi reyndar handboltann og hætti í fótboltanum eftir HM U-20 ára í Japan 2012. Síðan flutti ég til Stabæk og spilaði handbolta í tvö ár áður en ég meiddist á hné. Seinna árið saknaði ég fótboltans og sneri aftur á fótboltavöllinn sumarið 2014,“ sagði María sem var í norska landsliðshópnum á HM 2015 í Kanada.

En hefði hún komist í fremstu röð í handboltanum?

„Það er erfitt að komast í landsliðið en ég væri sennilega í handbolta núna en ekki á EM í fótbolta ef ekki hefði verið fyrir meiðslin. Þetta er tilviljun,“ sagði María.

María og stöllur hennar í norska landsliðinu þurftu að sætta sig við tap fyrir því hollenska á sunnudaginn.vísir/getty
Eitt skref fram og tíu aftur

Hún var frá í eitt og hálft ár vegna erfiðra meiðsla sem hún varð fyrir í leik Klepp og Avaldsnes í ágúst 2015.

„Ég vissi ekki hvort ég kæmi nokkurn tímann til baka. Óvissan var verst. Ég tók eitt skref fram á við og svo tíu aftur á bak. En ég kom sterkari út úr þessu, bæði andlega og líkamlega. Þetta styrkti mig,“ sagði María sem lýsti svo tilfinningunum fyrir leikinn gegn Hollandi.

„Þegar ég var í göngunum hugsaði ég að þetta væri gjöf af himnum eftir allt sem ég hef gengið í gegnum. Ég fékk tár í augun. Það var frábært að byrja leik á EM eftir erfiða tíma,“ sagði María sem verður væntanlega í eldlínunni þegar Noregur mætir Belgíu á morgun.

Viðtalið í heild sinni má lesa með því að smella hér.


Tengdar fréttir

María í norska EM-hópnum

María Þórisdóttir er í norska landsliðshópnum sem fer á EM í Hollandi í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×