Að þekkja hvorki sverð né blóð Þórlindur Kjartansson skrifar 16. júní 2017 09:00 Víðast hvar eru hersýningar ómissandi hluti af hátíðarhöldum sem tengjast frelsi og sjálfstæði þjóða. Þetta er í senn skiljanlegt og óhugnanlegt. Það er skiljanlegt að þjóðir vilji halda á lofti minningu þeirra sem hafa fallið í þágu þjóðar sinnar; en stöðug áminning um ógn ófriðarins og eyðileggingarmátt stríðstólanna er líka ískyggileg og ögrandi. Þegar Íslendingar lýstu yfir fullu sjálfstæði árið 1944 var engin hersýning, heldur var efnt til ljóðasamkeppni. Þetta gæti verið gott að hafa í huga nú þegar ríkislögreglustjóri boðar áframhaldandi sýnilegan vopnaburð sérsveitarmanna á fjöldasamkomum—eins og 17. júní á morgun.Friðsæl þjóð Þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði sínu undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar þá var sú gæfa að hafa að mestu sloppið við þær hamfarir ofarlega í huga margra Íslendinga. Annað sigurljóðið í ljóðasamkeppninni, sem æ síðan hefur verið einn hjartfólgnasti ættjarðaróður Íslendinga, inniheldur kaflann „Hver á sér fegra föðurland“. Þar er friðurinn skáldkonunni Huldu einmitt mjög hugleikinn og þakklæti fyrir að á Íslandi séu „friðsæl býli, ljós og ljóð. Svo langt frá heimsins vígaslóð.“ Þá var heimurinn hættulegur. Miklum mun hættulegri en nú. Og það má kallast kraftaverk að Íslendingum hafi tekist að verða að sjálfstæðri þjóð án átaka og blóðsúthellinga. Þvert á móti má eiginlega segja; því á meðan fjölmargar þjóðir þurftu að berjast fyrir tilvist sinni í ljótleika stríðs þá var það fegurðin sem gerði Ísland sjálfstætt. Sjálfstæði okkar grundvallaðist á friðsæld, virðingu fyrir náttúrunni, ljóðunum og bókmenntunum.Friðsælt þjóðarstolt Það að vera stoltur Íslendingur er ekki síst að vera bæði þakklátur og stoltur yfir þeirri staðreynd að við erum friðsöm þjóð og að þetta land er það friðvænlegasta á gervallri jarðarkringlunni. Í því stolti felst meðal annars sú mynd af íslenskum lögregluþjóni að hann sé að jafnaði friðarstillir og mannasættir en beiti ekki valdi nema í ítrustu neyð og þá af hófstillingu og með semingi. Það er enda þannig að íslenska lögreglan nýtur mikils almenns trausts og virðingar. Fjölmörgum Íslendingum brá því verulega í brún síðustu helgi þegar myndir birtust af sérsveitarmönnum úr lögreglunni með skammbyssur í beltunum og margir hafa verið mjög hugsi yfir yfirlýsingum ríkislögreglustjóra um að gera megi ráð fyrir áframhaldi á sýnilegum vopnaburði. Annars vegar hljóta flestir að vera hikandi við að þykjast vita betur en lögreglan hvort slík stefnubreyting sé vitræn; en hins vegar skynjum við að með þessari ákvörðun er ákaflega mikilvægu gildi í íslensku samfélagi stefnt í hættu og skarð hoggið í einn af hornsteinum þjóðarstoltsins.Stígur háll Það er líklega ekki umdeilt að lögreglan á Íslandi þarf að hafa aðgang að vopnum og að tryggja þurfi að sá vopnabúnaður sé nægilega öflugur til þess að lögreglan hafi ávallt yfirburði gagnvart glæpamönnum og öðru misindisfólki. Enn fremur hljóta stjórnvöld að bregðast við síendurteknum viðvörunum lögreglufólks sem segir að starfskjör og aðstæður fæli gott fólk frá þessum mikilvægu störfum. En samt sem áður er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að sýnilegur vopnaburður lögreglu núna gæti orðið forsmekkur að varanlegri breytingu—jafnvel þótt enginn kannist við að slíkt sé í farvatninu nú. Þess vegna eru mikil viðbrögð við sýnilegum vopnaburði ekki stormur í vatnsglasi, heldur eðlileg og réttmæt viðbrögð og ákall um að mjög varlega sé stigið til jarðar í framhaldinu. Við höfum séð fordæmin víða um heim þar sem lögreglan hefur smám saman vígvæðst og þar með fjarlægst þann almenning sem henni er ætlað að þjóna og vernda. Sem betur fer er langt frá því að hafa þurfi raunverulegar áhyggjur af slíku hér á landi en fordæmin hræða.Þetta er okkar mál Eitt sjónarmið sem hefur verið áberandi undanfarna daga er að það sé óviðurkvæmilegt að gagnrýna ákvörðun ríkislögreglustjóra. Jafnvel að það sé á einhvern hátt barnalegt að leyfa sér að hafa efasemdir um það hvort ákvörðunin um sýnilegan vopnaburð sé rétt. En þar er líka vegið að öðrum þætti þjóðarstoltsins—við höfum jafnan álitið sjálfstæði einstaklinganna og sjálfstæða hugsun vera mikilvægan eiginleika íslensku þjóðarinnar. Við erum ekki vön því að láta okkur duga svarið: „Þér kemur það ekki við.“ Þar að auki mættu þeir, sem ekki þykjast skilja áhyggjur fólks af stefnubreytingunni, velta fyrir sér þeirri spurningu hvort það sé sérstakt þroskamerki hjá einstaklingi eða samfélagi að samþykkja í blindni dómgreind yfirvalds; hvort sem maður hefur traust á því eða ekki. Ísland er friðsæl þjóð þótt enginn sé svo barnalegur að halda að glæpir eða voðaverk geti ekki átt sér stað hér eins og annars staðar. En það er líka óþroskað að gera of mikið úr þeirri áhættu og skaða að óþörfu mikilvæg gildi samfélagsins—þau hin sömu og sjálfstæði okkar og þjóðarstolt byggjast á. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Lenda menn í fangelsi eftir misheppnaða skólagöngu? Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Litlu fyrirtækin – kerfishyggja og skattlagning Eiríkur S. Svavarsson Skoðun Reiknileikni Sambandsins Ragnar Þór Pétursson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun
Víðast hvar eru hersýningar ómissandi hluti af hátíðarhöldum sem tengjast frelsi og sjálfstæði þjóða. Þetta er í senn skiljanlegt og óhugnanlegt. Það er skiljanlegt að þjóðir vilji halda á lofti minningu þeirra sem hafa fallið í þágu þjóðar sinnar; en stöðug áminning um ógn ófriðarins og eyðileggingarmátt stríðstólanna er líka ískyggileg og ögrandi. Þegar Íslendingar lýstu yfir fullu sjálfstæði árið 1944 var engin hersýning, heldur var efnt til ljóðasamkeppni. Þetta gæti verið gott að hafa í huga nú þegar ríkislögreglustjóri boðar áframhaldandi sýnilegan vopnaburð sérsveitarmanna á fjöldasamkomum—eins og 17. júní á morgun.Friðsæl þjóð Þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði sínu undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar þá var sú gæfa að hafa að mestu sloppið við þær hamfarir ofarlega í huga margra Íslendinga. Annað sigurljóðið í ljóðasamkeppninni, sem æ síðan hefur verið einn hjartfólgnasti ættjarðaróður Íslendinga, inniheldur kaflann „Hver á sér fegra föðurland“. Þar er friðurinn skáldkonunni Huldu einmitt mjög hugleikinn og þakklæti fyrir að á Íslandi séu „friðsæl býli, ljós og ljóð. Svo langt frá heimsins vígaslóð.“ Þá var heimurinn hættulegur. Miklum mun hættulegri en nú. Og það má kallast kraftaverk að Íslendingum hafi tekist að verða að sjálfstæðri þjóð án átaka og blóðsúthellinga. Þvert á móti má eiginlega segja; því á meðan fjölmargar þjóðir þurftu að berjast fyrir tilvist sinni í ljótleika stríðs þá var það fegurðin sem gerði Ísland sjálfstætt. Sjálfstæði okkar grundvallaðist á friðsæld, virðingu fyrir náttúrunni, ljóðunum og bókmenntunum.Friðsælt þjóðarstolt Það að vera stoltur Íslendingur er ekki síst að vera bæði þakklátur og stoltur yfir þeirri staðreynd að við erum friðsöm þjóð og að þetta land er það friðvænlegasta á gervallri jarðarkringlunni. Í því stolti felst meðal annars sú mynd af íslenskum lögregluþjóni að hann sé að jafnaði friðarstillir og mannasættir en beiti ekki valdi nema í ítrustu neyð og þá af hófstillingu og með semingi. Það er enda þannig að íslenska lögreglan nýtur mikils almenns trausts og virðingar. Fjölmörgum Íslendingum brá því verulega í brún síðustu helgi þegar myndir birtust af sérsveitarmönnum úr lögreglunni með skammbyssur í beltunum og margir hafa verið mjög hugsi yfir yfirlýsingum ríkislögreglustjóra um að gera megi ráð fyrir áframhaldi á sýnilegum vopnaburði. Annars vegar hljóta flestir að vera hikandi við að þykjast vita betur en lögreglan hvort slík stefnubreyting sé vitræn; en hins vegar skynjum við að með þessari ákvörðun er ákaflega mikilvægu gildi í íslensku samfélagi stefnt í hættu og skarð hoggið í einn af hornsteinum þjóðarstoltsins.Stígur háll Það er líklega ekki umdeilt að lögreglan á Íslandi þarf að hafa aðgang að vopnum og að tryggja þurfi að sá vopnabúnaður sé nægilega öflugur til þess að lögreglan hafi ávallt yfirburði gagnvart glæpamönnum og öðru misindisfólki. Enn fremur hljóta stjórnvöld að bregðast við síendurteknum viðvörunum lögreglufólks sem segir að starfskjör og aðstæður fæli gott fólk frá þessum mikilvægu störfum. En samt sem áður er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að sýnilegur vopnaburður lögreglu núna gæti orðið forsmekkur að varanlegri breytingu—jafnvel þótt enginn kannist við að slíkt sé í farvatninu nú. Þess vegna eru mikil viðbrögð við sýnilegum vopnaburði ekki stormur í vatnsglasi, heldur eðlileg og réttmæt viðbrögð og ákall um að mjög varlega sé stigið til jarðar í framhaldinu. Við höfum séð fordæmin víða um heim þar sem lögreglan hefur smám saman vígvæðst og þar með fjarlægst þann almenning sem henni er ætlað að þjóna og vernda. Sem betur fer er langt frá því að hafa þurfi raunverulegar áhyggjur af slíku hér á landi en fordæmin hræða.Þetta er okkar mál Eitt sjónarmið sem hefur verið áberandi undanfarna daga er að það sé óviðurkvæmilegt að gagnrýna ákvörðun ríkislögreglustjóra. Jafnvel að það sé á einhvern hátt barnalegt að leyfa sér að hafa efasemdir um það hvort ákvörðunin um sýnilegan vopnaburð sé rétt. En þar er líka vegið að öðrum þætti þjóðarstoltsins—við höfum jafnan álitið sjálfstæði einstaklinganna og sjálfstæða hugsun vera mikilvægan eiginleika íslensku þjóðarinnar. Við erum ekki vön því að láta okkur duga svarið: „Þér kemur það ekki við.“ Þar að auki mættu þeir, sem ekki þykjast skilja áhyggjur fólks af stefnubreytingunni, velta fyrir sér þeirri spurningu hvort það sé sérstakt þroskamerki hjá einstaklingi eða samfélagi að samþykkja í blindni dómgreind yfirvalds; hvort sem maður hefur traust á því eða ekki. Ísland er friðsæl þjóð þótt enginn sé svo barnalegur að halda að glæpir eða voðaverk geti ekki átt sér stað hér eins og annars staðar. En það er líka óþroskað að gera of mikið úr þeirri áhættu og skaða að óþörfu mikilvæg gildi samfélagsins—þau hin sömu og sjálfstæði okkar og þjóðarstolt byggjast á. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.