Viðskipti erlent

Samstarfsslitin skilja Katar eftir einangrað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/epa
Andrúmsloftið við Persaflóa er eldfimt eftir að fjöldi Arabaríkja skar á öll stjórnmála- og viðskiptatengsl við Katar. Ástæðan er sú að ríkið á að hafa stutt við bakið á ýmsum öfga- og hryðjuverkahópum.

Meðal ríkja sem slitu tengsl við Katar eru Jemen, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi-Arabía. Ljóst er að mestu munar um síðastnefnda ríkið enda Katar staðsett á skaga og á aðeins landamæri að Sádi-Arabíu.

Viðskiptaþvinganirnar ná einnig til flutninga á fólki. Landamærunum til Katar hefur verið lokað og erfitt getur reynst að koma vörum til landsins. Hingað til hafa um fjörutíu prósent af innflutningi landsins komið frá Sádi-Arabíu. Katörskum ríkisborgurum, sem staðsettir eru í löndunum í kring, hefur verið gefinn fjórtán daga frestur til þess að koma sér aftur til heimalandsins.

Stjórnvöld í Katar brugðust við fréttunum með yfirlýsingu um að aðgerðirnar myndu ekki hafa nein áhrif á daglegt líf í landinu. Ljóst er hins vegar að því fer fjarri. Stærstu flugfélög heimsins fljúga ekki til landsins á meðan óvissuástand ríkir og þá mun þetta koma til með að hafa mikil áhrif á rekstur Qatar Airways. Íbúar landsins gripu margir hverjir til þess ráðs að hamstra mat og nauðsynjavörur og víða tæmdust hillur verslana af þeim sökum.

Stjórnvöld í Katar hafa löngum verið óvinsæl hjá nágrönnum sínum sökum stuðnings við hópa á borð við Bræðralag múslima en samtökin eru bönnuð í Sádi-Arabíu. Þá hefur velvild þeirra í garð Írana ekki orðið til þess að bæta úr skák. Kornið sem fyllti mælinn voru ummæli sem birtust fyrir tveimur vikum á vef ríkisfjölmiðils Katar. Þar fór emírinn, Tamin bin Hamad Al Thani, fögrum orðum um Íran. Stjórnvöld í Katar sögðu síðar að vefsíðan hefði orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum en sú skýring þótti ekki trúverðug.

„Í dag hefur Katar verið skotspónn herferðar sem er uppspuni frá rótum og enginn fótur er fyrir,“ segir í yfirlýsingu frá katarsta utanríkisráðuneytinu. „Herferðinni er ætlað að grafa undan Katar, stjórnvöldum og þegnum landsins.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×