Sport

Lygileg ferðasaga: Voru 56 klukkutíma á ferðalagi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ferðalag keppnisliða Íslands í sundi og körfubolta á Smáþjóðaleikana í San Marinó breyttist í martröð á sunnudag. Keppendur komu ekki á áfangastað fyrr en í nótt og voru þá búin að vera 46 klukkutíma á ferðalagi.

Það sem meira er þá á stór hluti af okkar keppnisfólki að hefja keppni í dag. Keppni í sundi hefst nú í morgunsárið og íslenska karlalandsliðið í körfubolta mætir Kýpur síðdegis.

Íslenski hópurinn kom á áfangastað klukkan 3 í nótt að staðartíma. Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, segir að ferðasagan hafi verið það lygileg að hún hefði líklega aldrei þótt trúverðug skáldsaga.

Tölvubilun örlagavaldur

Vandræðin hófust þegar stórfelld bilun í tölvukerfi British Airways setti áætlanir íslenska hópsins í uppnám. Hópurinn flaug frá Íslandi á sunnudagsmorgun og átti að halda frá London til Bologna á Ítalíu en þaðan var stutt rútuferð til San Marínó.

Sjá einnig: Íslenskt landsliðsfólk strandaglópar á Heathrow

„En þegar allt fór úrskeðis hjá British Airways reyndist ekki hægt að fá neina aðstoð eða hjálp frá þeim. Hópurinn var fastur í London því allar samgöngur út úr borginni voru tepptar.“

Hópurinn komst þó á lokum upp á hótel seint á sunnudagskvöld. Hannes segir að hópurinn hafi farið seint að sofa og þurft að fara snemma á fætur. Rúta átti að keyra með hópinn til Dover, þaðan sem siglt var yfir til Frakklands.

„En það var svo eitt á eftir öðru. Rútubílstjórinn veiktist þannig að brottför frá hótelinu á mánudagsmorgun seinkaði um tvo tíma. Svo voru ferðaplön sífellt að breytast - það gerðist til dæmis tvívegis bara á meðan hópurinn var að sigla yfir til Frakklands,“ sagði Hannes.

Við komuna til Frakklands var ekið með rútu til Brussel. Þaðan flaug hópurinn til Milano og komst svo á áfangastað eftir fjögurra tíma rútuferð, klukkan þrjú í nótt sem fyrr segir.



Beddar á lélegu hóteli

Hannes Sigurbjörn lofar sérstaklega ferðaskrifstofuna VITA fyrir að hafa komið þessum stóra hóp alla leið að lokum.

„Það var sérstaklega hún Soffía sem á miklar þakkir skildar. Sem og fararstjórarnir okkar og allt starfsfólk ÍSÍ. Allir stóðu sig frábærlega og gerðu allt sem þau gátu til að leysa þetta,“ sagði Hannes sem er þó ekki með í förinni til San Marínó.

Hins vegar var ekki allt búið við komuna til San Marinó. Körfuboltahópurinn var settur á hótel sem Hannes segir ekki boðlegt.

„Það voru beddar, eins og voru heima hjá ömmu í gamla daga, á hótelinu. Þetta þótti mér afar leiðinlegt sérstaklega fyrir okkar fólk sem hafði verið svo jákvætt og bjartsýnt alla ferðina. Nú er verið að vinna að því að koma hópnum á nýtt hótel.“



Mótshaldarar verða að bregðast við

Hann gagnrýnir að sérstklega sundfólkið hafi þurft að hefja keppni strax í dag.

„Mótið er haldið í anda Ólympíuleikanna og auðvitað á að vera hægt að bregðast við svona löguðu. Ég geri mér samt grein fyrir því að það er erfitt en aðstæðurnar sem komu upp voru afar óvenjulegar,“ sagði hann.

Hannes sagði að kvennalið Íslands í körfubolta hafi átt að spila við Lúxemborg í dag en að þeim leik hafi verið frestað til föstudags.

„Lúxemborg tók vel í okkar beiðni og þess vegna var þetta hægt. Mótshaldarar tóku ekki vel í þetta. En þetta var svo bara keyrt í gegn, sem betur fer.“



#KannskiFerdin

Finnur Freyr Stefánsson, landsliðsþjálfari Íslands í körfubolta, sagði ferðasöguna á Twitter-síðu sinni og má lesa hana hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×