Skoðun

Enn skal á það reyna

Gunnlaugur Stefánsson skrifar

Nú gera áætlanir laxeldisiðjunnar ráð fyrir allt að 200 þúsund tonna ársframleiðslu með laxeldi í opnum kvíum við íslenskar strendur og þar af 90 þúsund tonnum á Austfjörðum. Útlendingar standa að útrásinni og hvergi í stjórnkerfinu er spurt um uppruna framkvæmdafjárins. Það virðist mikill munur á því hvort fjárfest er í bönkum eða sjó á Íslandi. Og allt fæst þetta nánast ókeypis á sama tíma og íslenskur sjávarútvegur greiðir veiðigjöld og strangar takmarkanir eru í gildi á eignarheimildum útlendinga í útveginum. Reynslan af laxeldisiðjunni í nágrannalöndum er svo slæm, að víðast er hætt að gefa út ný leyfi fyrir opnu sjókvíaeldi. Það staðfesti t.d. hæstiréttur land-og umhverfisverndar í Svíþjóð í nýlegum dómum. En hér á landi virðist flest leyfilegt.



Engin ný tækni hefur komið fram í opnu sjókvíaeldi með kynbættan norskan laxfisk sem kemur í veg fyrir umhverfistjón. Fiskur sleppur í umtalsverðum mæli og blandast villtum stofnum, sjúkdómar og lús grassera í mergðinni í kvíunum með óhjákvæmilegri lyfjanotkun, og mengun vegna úrgangs er hrikaleg. Þetta blasir við af reynslunni í nágrannalöndum.



Umræðan erlendis um skaðann af eldinu er nú að þyngjast og líklegt að eldisfiskur muni eiga undir högg að sækja á matvælamörkuðum í framtíðinni. Ísland á hér mikilla hagsmuna að gæta, enda þekkt af því að bjóða ferskar afurðir úr náttúrlegu og vistvænu umhverfi. Sama ímynd vegur þungt fyrir ferðaþjónustuna og verið styrkur Íslendinga í alþjóðasamstarfi um umhverfismál. Vegið er að þessum hagsmunum vegna leiftursóknar útlendinga með risalaxeldi í íslenskum sjó af því að lokað hefur verið á frekari útþenslu þeirra í nágrannalöndunum. Svo þegar tjónið blasir við hér á landi, þá liggur ekkert fyrir um það hverjir bera ábyrgðina og hvernig bæta eigi fyrir skaðann. Við erum þegar farin að kynnast því í ítrekuðum slysasleppingum fiska úr eldiskvíum.



Allar þessar staðreyndir liggja fyrir. Íslendingar hafa sára reynslu af því að láta skammtímagróða glepja sýn og fá hrunið í bakið. Enn skal á það reyna.

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×