Erlent

Skotar biðja formlega um leyfi til atkvæðagreiðslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicola Sturgeon skrifar bréfið til Theresu May.
Nicola Sturgeon skrifar bréfið til Theresu May. Vísir/AFP
Heimastjórn Skotlands hefur beðið yfirvöld Bretlands formlega um leyfi til að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra heimastjórnarinnar, hefur sent Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, bréf þar að lútandi. Ástæðan er útganga Bretlands úr Evrópusambandinu.

Í bréfinu segir Sturgeon að vegna breyttra aðstæðna verði Skotar að fá tækifæri til að velja eigin framtíð. Samkvæmt heimildum Sky News vill Sturgeon að atkvæðagreiðslan verði haldin innan 18 mánaða. Talið er að May muni hafna þeirri beiðni.

May hefur sagt að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki tímabær að svo stöddu.

Skoska þingið samþykkti að fara fram á nýja atkvæðagreiðslu á þriðjudaginn. 69 þingmenn studdu tillöguna en 59 voru á móti henni. Skotar kusu um sjálfstæði árið 2014 en þá kusu 55 prósent Skota að vera áfram í Bretlandi.

Á móti kemur að 62 prósent Skota vildu vera áfram í Evrópusambandinu.

AFP fréttaveitan segir skoðanakannanir í Skotlandi sýna fram á að stuðningur við sjálfstæði hafi lítið breyst meðal íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×