Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid eiginkona hans hófu tveggja daga opinbera heimsókn til Noregs í morgun. Haraldur fimmti Noregskonungur og Sonja drottning bjóða forsetahjónunum til hátíðarkvöldverðar í konungshöllinni í Osló í kvöld.
Forsetahjónunum var vel fagnað við komuna í höll konungs í morgun, þar sem norksa konungsfjölskyldan tók á móti þeim. Þetta er önnur opinber heimsókn forsetahjónanna til útlanda en þau heimsóttu dönku konungshjónin í lok janúar.
Eftir formlega móttöku í konungshöllinni í dag lagði forsetinn blómsveig að þjóðarminnismerkinu við Akershus virkið, heimsótti norska Stórþingið og flutti lokafyrirlestur á ráðstefnunni Global Challenges – Nordic Experiences við háskólann í Osló. Eliza Reid flutti jafnframt fyrirlestur um jafnréttismál og tók þátt í pallborðsumræðum.
Íslendingar búsettir í Osló fögnuðu forsetahjónunum með því að veifa íslenska fánanum við konungshöllina, þar sem engu verður væntanlega til sparað í hátíðarkvöldverði í kvöld.
Á morgun eru ráðgerðar heimsóknir til Start - up Lab, miðstöðvar frumkvöðlafyrirtækja í Osló og NORLA, kynningarmiðstöðvar norskra bókmennta á erlendri grundu. Efnt verður til menningardagskrár í Þjóðarbókhlöðunni, forseti á fund með Ernu Solberg forsætisráðherra og situr hádegisverð norsku ríkisstjórnarinnar í boði forsætisráðherra.
Síðdegis á morgun heimsækja forsetahjón Ólafíustofu, safnaðarheimili íslenska safnaðarins í Osló, og bjóða til móttöku í Astrup Fearnley listasafninu til heiðurs norsku konungshjónunum.