Fótbolti

Margrét Lára um móðurhlutverkið: Sé ekki eftir tímanum sem ég var frá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára er á leið á sitt þriðja Evrópumót.
Margrét Lára er á leið á sitt þriðja Evrópumót. vísir/ernir
Landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir ræðir endurkomu sína eftir barnsburð og móðurhlutverkið í viðtali sem birtist á heimasíðu FIFA í dag.

Margrét Lára eignaðist sitt fyrsta barn í júní 2014 og segist ekki sjá eftir tímanum sem hún var frá vegna barnsburðarins.

„Ég var staðráðin í að eignast barn. Ég vildi líka gera það áður en ég yrði of gömul og það yrði erfitt að koma sér aftur af stað,“ sagði Margét Lára.

„Þetta var mikilvægur kafli á ferlinum en tímapunkturinn, rétt eftir EM 2013, var réttur. Þegar allt kemur til alls elska ég móðurhlutverkið. Ég er fjölskyldukona og sé ekkert eftir tímanum sem ég var frá.“

Margrét Lára segist alltaf hafa vitað að hún myndi snúa aftur á völlinn og segir að það gangi vel að samtvinna fótboltann og fjölskyldulífið.

„Sem betur fer hefur þetta gengið hjá mér og ég elska að geta sameinað þetta. Fjölskyldulífið er rólegt og indælt en síðan get ég verið smá villt þegar ég fer inn á völlinn,“ sagði Margrét Lára sem segist vera betri leikmaður en hún var áður en hún eignaðist son sinn.

„Ég er rólegri í leik mínum. Að vera móðir hefur gert mig að betri manneskju en líka að betri fótboltamanni, held ég. Ég nýt þess að spila fótbolta jafnvel meira núna en áður. Ég er með barn svo tíminn er mjög mikilvægur. Ef ég er að fórna tíma með syni mínum vil ég gera eitthvað sem ég elska. Sem betur fer hef ég elskað fótbolta síðan ég var lítil og sú ást er sterkari sem aldrei fyrr,“ sagði Margrét Lára sem er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi.

Eyjakonan er bjartsýn á gott gengi á EM í Hollandi í sumar.

„Þetta er besta lið sem við höfum átt. Við erum vel undirbúnar, með mjög gott þjálfarateymi og verðum betri á öllum sviðum,“ sagði Margrét Lára.

Margrét Lára segir að Ísland hafi aldrei átt sterkara lið en núna.vísir/ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×