Á milli kerfa Bergur Ebbi skrifar 17. mars 2017 07:00 Hvað nákvæmlega gerðist mánudaginn 6. mars 2017 og dagana þar á eftir í íslensku samfélagi? Fjölmiðlar voru undirlagðir af einu málefni sem snerist um viðtal sem fréttamaður á Stöð 2 tók við talsmann hagsmunahóps sem berst fyrir líkamsvirðingu. Hvað á til dæmis að kalla svona „fjölmiðlaatvik“, þessa röð frétta sem eru svo einkennandi fyrir okkar tíma? Þar sem einhver segir eitthvað og annar hefur skoðun á því og svo hefur einhver skoðun á því og svo hefur einhver enn annar skoðun á því hvort skoðandi númer eitt, tvö eða tuttugu hafði raunverulega rétt á að hafa þá skoðun? Líklegast þarf ekki að gefa þessu nafn. Þetta er þjóðfélagsumræða, og hún endar oft þannig að fólk er dregið í dilka. En er það nauðsynlegt? Óháð því hvernig málið kom til, held ég að það megi alveg slá því föstu að varpað hafi verið ljósi á ýmislegt um fordóma á þessum dögum. Ég er ekki sammála þeim sem segja að svona umræða sé stormur í vatnsglasi. Þetta hefur allavega fengið mig til að hugsa.Forgangsröðun fordómaleysis? Auðvitað er ekki í lagi að vera með fordóma gagnvart fólki í yfirvigt. Í fyrsta lagi er það rangt að offita sé val, hún er það í fæstum tilfellum. Ýmist liggja að baki henni líkamlegar ástæður eða snúnir sálfræðilegir þættir sem hafa að endingu ekkert með frjálst val að gera. Þetta finnst mér borðleggjandi. En það sem krefst kannski aðeins meiri yfirlegu er sú röksemd að feitt fólk eigi ekki tillitsemi og fordómaleysi skilið vegna þess að svo gríðarlega margir aðrir eigi meira bágt en það. Samkvæmt því á fólk sem þjáist af offitu ekki að ybba gogg og taka þátt í meintri „fórnarlambavæðingu“ vegna þess að það sé aðeins pláss fyrir svo og svo marga minnihlutahópa í samfélaginu, og það pláss sé þegar eyrnamerkt öðrum. Vandamálið er að svona röksemdir nálgast málið með groddalegri einföldun. Í fyrsta lagi þá gera þær ráð fyrir að einn eiginleiki í fari fólks, til dæmis samkynhneigð eða offita, séu nánast einu einkenni slíkrar persónu. Þannig sé fólk annaðhvort í minnihlutahópi eða ekki í minnihlutahópi. Reyndin er samt sú að margir, sem vissulega þurfa aukinn skilning á sumum sviðum tilverunnar, geta verið í forréttindastöðu þegar kemur að öðrum. Það er ekki skynsamleg hugsun að flokka þjóðfélagsþegna niður í „fórnarlömb“ sem þurfi samúð og sérmeðferð og „forréttindapésa“ sem eigi ekki að þykjast skilja vandamál hinna. Í mörgum tilfellum er skörun milli þessara meintu hópa. Fólk getur verið í forréttindastöðu vegna ákveðins eiginleika en í minnihlutahópi vegna annars. Í öðru lagi gera slíkar röksemdir ráð fyrir að tillitsemi sé á einhvern hátt takmörkuð auðlind, rétt eins og samfélagið eigi bara ákveðið mikið af fordómaleysisdjús og að hann þurfi að kreista strategískt yfir þá staði sem mest þurfa á honum að halda. Ég verð alltaf hálf dapur þegar ég kemst að því, mér til töluverðrar undrunar, að einhverjum finnist þetta í raun. Þetta er nánast jafn vitlaust og að telja nóg að vera kurteis fyrir hádegi því maður geti bara verið fordómalaus og skilningsríkur í nokkra klukkutíma sólarhringsins. Ef sú er raunin þá hvet ég fólk eindregið til að dreifa sínum fordómatíma þannig að hann raðist niður yfir nóttina, meðan maður sefur. Það er kannski ekki alveg til fyrirmyndar að dreyma fordómafulla drauma, en það má samt segja að í því felist ákveðin tillitssemi gagnvart meðborgurunum.Endalok gamla kerfisins? Maður er lengi að læra, líklega allt sitt líf. Ég hefði ekki trúað því fyrir nokkrum árum hversu margir hafa lifað lífinu býsna ósáttir við hlutskipti sitt. Fastir í röngu fjölskyldumynstri, röngu kerfi og jafnvel röngum líkama. Í örvæntingarfullri tilraun til að koma rökum utan um þetta hef ég stundum haldið að eitthvað af þessu hljóti að vera misskilningur, einhver árátta í misgölluðum kerfum, til að reyna á þanmörk sín. Hvernig getur verið að það séu svona margir kvíðnir, svona margir reiðir, svona margir sem þaggað hefur verið niður í? En í öll skiptin hef ég haft rangt fyrir mér. Jú. Það er víst svona. Mér finnst það hafa sannast til dæmis í þeim breytingum sem við höfum séð á stjórnmálum undanfarin ár og hversu margar nýjar raddir hafa kvatt sér hljóðs. Þó að breytingin sé ekki að fullu komin fram þá heyrum við nú í fólki sem hefði fyrir nokkrum árum aldrei dottið í hug að stjórnmál gætu verið fyrir sig. Og auðvitað er þetta fólk ekki að tala um það sama og stjórnmálamenn töluðu um fyrir einni kynslóð síðan. Þá voru stjórnmálamenn allir úr sama menginu, menn í jakkafötum sem ýmist dýrkuðu Washington, Moskvu, Sjóvá eða Sambandið. Það virkaði kannski eins og flóra af skemmtilegum karakterum, en í raun innihélt stjórnmálastétt aðeins lítið sniðmengi samfélagsins. Og ég veit hvers vegna ég var svona lengi að ná utan um þá þróun sem hefur orðið. Það er vegna þess að ég sjálfur, hefði auðveldlega fallið inn í hópinn eins og hann hafði verið áratugum saman. Gamla kerfið hentaði minni þjóðfélagsstöðu ágætlega og þess vegna hefur það tekið mig tíma að skilja að fyrirkomulagið geti verið öðruvísi. En nú sé ég reyndar, að gamla kerfið er ekkert fyrir mig. Allar þessar hugleiðingar finnst mér leiða að þeirri niðurstöðu að við séum stödd á milli kerfa. Í samfélaginu eimir enn eftir af borgaralegri tilhneigingu til að flokka fólk, helst á miðlægan og afgerandi hátt í eitt skipti fyrir öll, og nýs kerfis sem byggir á því að fólk hafi fullt val um að skilgreina sig sjálft. En ofar báðum þessum kerfum eru sterkari grunngildi eins og kærleikur og samúð. Og þó að það hljómi klisjulega, þá trompa þessi gildi allt hitt. Þeir sem njóta forréttinda verða að geta sett sig í spor þeirra sem tilheyra minnihlutahópum, og jafnvel öfugt. Og stundum eru hæg heimatökin því sárafáir eru bara „minnimáttar” eða bara „forréttindapésar”, þó að því sé vissulega misskipt. Þessi krefjandi leið er, þrátt fyrir allt, eina leiðin til að uppræta fordóma. Að lokum vil ég senda góðar kveðjur til bæði fréttamannsins á Stöð 2 og talskonu hagsmunasamtakanna, sem komu þessari umræðu af stað. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Hvað nákvæmlega gerðist mánudaginn 6. mars 2017 og dagana þar á eftir í íslensku samfélagi? Fjölmiðlar voru undirlagðir af einu málefni sem snerist um viðtal sem fréttamaður á Stöð 2 tók við talsmann hagsmunahóps sem berst fyrir líkamsvirðingu. Hvað á til dæmis að kalla svona „fjölmiðlaatvik“, þessa röð frétta sem eru svo einkennandi fyrir okkar tíma? Þar sem einhver segir eitthvað og annar hefur skoðun á því og svo hefur einhver skoðun á því og svo hefur einhver enn annar skoðun á því hvort skoðandi númer eitt, tvö eða tuttugu hafði raunverulega rétt á að hafa þá skoðun? Líklegast þarf ekki að gefa þessu nafn. Þetta er þjóðfélagsumræða, og hún endar oft þannig að fólk er dregið í dilka. En er það nauðsynlegt? Óháð því hvernig málið kom til, held ég að það megi alveg slá því föstu að varpað hafi verið ljósi á ýmislegt um fordóma á þessum dögum. Ég er ekki sammála þeim sem segja að svona umræða sé stormur í vatnsglasi. Þetta hefur allavega fengið mig til að hugsa.Forgangsröðun fordómaleysis? Auðvitað er ekki í lagi að vera með fordóma gagnvart fólki í yfirvigt. Í fyrsta lagi er það rangt að offita sé val, hún er það í fæstum tilfellum. Ýmist liggja að baki henni líkamlegar ástæður eða snúnir sálfræðilegir þættir sem hafa að endingu ekkert með frjálst val að gera. Þetta finnst mér borðleggjandi. En það sem krefst kannski aðeins meiri yfirlegu er sú röksemd að feitt fólk eigi ekki tillitsemi og fordómaleysi skilið vegna þess að svo gríðarlega margir aðrir eigi meira bágt en það. Samkvæmt því á fólk sem þjáist af offitu ekki að ybba gogg og taka þátt í meintri „fórnarlambavæðingu“ vegna þess að það sé aðeins pláss fyrir svo og svo marga minnihlutahópa í samfélaginu, og það pláss sé þegar eyrnamerkt öðrum. Vandamálið er að svona röksemdir nálgast málið með groddalegri einföldun. Í fyrsta lagi þá gera þær ráð fyrir að einn eiginleiki í fari fólks, til dæmis samkynhneigð eða offita, séu nánast einu einkenni slíkrar persónu. Þannig sé fólk annaðhvort í minnihlutahópi eða ekki í minnihlutahópi. Reyndin er samt sú að margir, sem vissulega þurfa aukinn skilning á sumum sviðum tilverunnar, geta verið í forréttindastöðu þegar kemur að öðrum. Það er ekki skynsamleg hugsun að flokka þjóðfélagsþegna niður í „fórnarlömb“ sem þurfi samúð og sérmeðferð og „forréttindapésa“ sem eigi ekki að þykjast skilja vandamál hinna. Í mörgum tilfellum er skörun milli þessara meintu hópa. Fólk getur verið í forréttindastöðu vegna ákveðins eiginleika en í minnihlutahópi vegna annars. Í öðru lagi gera slíkar röksemdir ráð fyrir að tillitsemi sé á einhvern hátt takmörkuð auðlind, rétt eins og samfélagið eigi bara ákveðið mikið af fordómaleysisdjús og að hann þurfi að kreista strategískt yfir þá staði sem mest þurfa á honum að halda. Ég verð alltaf hálf dapur þegar ég kemst að því, mér til töluverðrar undrunar, að einhverjum finnist þetta í raun. Þetta er nánast jafn vitlaust og að telja nóg að vera kurteis fyrir hádegi því maður geti bara verið fordómalaus og skilningsríkur í nokkra klukkutíma sólarhringsins. Ef sú er raunin þá hvet ég fólk eindregið til að dreifa sínum fordómatíma þannig að hann raðist niður yfir nóttina, meðan maður sefur. Það er kannski ekki alveg til fyrirmyndar að dreyma fordómafulla drauma, en það má samt segja að í því felist ákveðin tillitssemi gagnvart meðborgurunum.Endalok gamla kerfisins? Maður er lengi að læra, líklega allt sitt líf. Ég hefði ekki trúað því fyrir nokkrum árum hversu margir hafa lifað lífinu býsna ósáttir við hlutskipti sitt. Fastir í röngu fjölskyldumynstri, röngu kerfi og jafnvel röngum líkama. Í örvæntingarfullri tilraun til að koma rökum utan um þetta hef ég stundum haldið að eitthvað af þessu hljóti að vera misskilningur, einhver árátta í misgölluðum kerfum, til að reyna á þanmörk sín. Hvernig getur verið að það séu svona margir kvíðnir, svona margir reiðir, svona margir sem þaggað hefur verið niður í? En í öll skiptin hef ég haft rangt fyrir mér. Jú. Það er víst svona. Mér finnst það hafa sannast til dæmis í þeim breytingum sem við höfum séð á stjórnmálum undanfarin ár og hversu margar nýjar raddir hafa kvatt sér hljóðs. Þó að breytingin sé ekki að fullu komin fram þá heyrum við nú í fólki sem hefði fyrir nokkrum árum aldrei dottið í hug að stjórnmál gætu verið fyrir sig. Og auðvitað er þetta fólk ekki að tala um það sama og stjórnmálamenn töluðu um fyrir einni kynslóð síðan. Þá voru stjórnmálamenn allir úr sama menginu, menn í jakkafötum sem ýmist dýrkuðu Washington, Moskvu, Sjóvá eða Sambandið. Það virkaði kannski eins og flóra af skemmtilegum karakterum, en í raun innihélt stjórnmálastétt aðeins lítið sniðmengi samfélagsins. Og ég veit hvers vegna ég var svona lengi að ná utan um þá þróun sem hefur orðið. Það er vegna þess að ég sjálfur, hefði auðveldlega fallið inn í hópinn eins og hann hafði verið áratugum saman. Gamla kerfið hentaði minni þjóðfélagsstöðu ágætlega og þess vegna hefur það tekið mig tíma að skilja að fyrirkomulagið geti verið öðruvísi. En nú sé ég reyndar, að gamla kerfið er ekkert fyrir mig. Allar þessar hugleiðingar finnst mér leiða að þeirri niðurstöðu að við séum stödd á milli kerfa. Í samfélaginu eimir enn eftir af borgaralegri tilhneigingu til að flokka fólk, helst á miðlægan og afgerandi hátt í eitt skipti fyrir öll, og nýs kerfis sem byggir á því að fólk hafi fullt val um að skilgreina sig sjálft. En ofar báðum þessum kerfum eru sterkari grunngildi eins og kærleikur og samúð. Og þó að það hljómi klisjulega, þá trompa þessi gildi allt hitt. Þeir sem njóta forréttinda verða að geta sett sig í spor þeirra sem tilheyra minnihlutahópum, og jafnvel öfugt. Og stundum eru hæg heimatökin því sárafáir eru bara „minnimáttar” eða bara „forréttindapésar”, þó að því sé vissulega misskipt. Þessi krefjandi leið er, þrátt fyrir allt, eina leiðin til að uppræta fordóma. Að lokum vil ég senda góðar kveðjur til bæði fréttamannsins á Stöð 2 og talskonu hagsmunasamtakanna, sem komu þessari umræðu af stað. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun