Bíó og sjónvarp

Jimmy Kimmel lét Trump heyra það í opnunarræðu Óskarsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jimmy Kimmel var kynnir á Óskarnum í nótt.
Jimmy Kimmel var kynnir á Óskarnum í nótt. vísir/getty
Þáttastjórnandinn og grínistinn Jimmy Kimmel skaut föstum skotum á Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í opnunarræðu sinni á Óskarsverðlaununum í nótt en Kimmel var kynnir hátíðarinnar. Hann þakkaði meðal annars forsetanum fyrir þegar hann spurði viðstadda hvort þeir myndu eftir því að í fyrra hefðu Óskarsverðlaunin verið talin lituð af kynþáttahatri.

Hann byrjaði á því að vekja athygli á að milljónir Bandaríkjamanna væru að fylgjast með Óskarnum í beinni sjónvarpsútsendingu og þá væri hátíðin einnig send beint út um allan heim, eða til 225 landa sem núna hata Bandaríkin.

„Þjóðin er klofin akkúrat núna og fólk hefur verið að segja við mig að ég þurfi að segja eitthvað sem sameinar þjóðina. En ég er ekki maðurinn til að sameina þjóðina,“ sagði Kimmel og bætti við að það væri aðeins ein hetja í salnum, Mel Gibson, og vísaði þar í myndina Braveheart en hann væri heldur ekki fær um að sameina bandarísku þjóðina.

Kimmel fór síðan á alvarlegri nótur en vísaði áfram í Trump og slagorð hans „Make America Great Again.“

„Það eru margar milljónir að horfa núna og ef allir myndu bara nálgast eina manneskju sem maður er ósammála og eiga jákvætt og uppbyggilegt samtal, ekki sem frjálslyndir eða íhaldssamir heldur sem Bandaríkjamenn, ef við myndum öll gera það þá gætum við gert Bandaríkin frábær á ný. Þetta byrjar allt með okkur.“

Eins og Kimmel var von og vísa var hann svo á léttu nótunum einnig og gerði meðal annars grín að leikaranum Matt Damon en þeir hafa lengi eldað grátt silfur saman, þó meira í gríni en alvöru. Kimmel sagði að það hefði verið fallega gert af Damon að láta aðalhlutverkið í myndinni Manchester by the Sea, sem Damon framleiddi, til æskuvinar síns Casey Affleck.

„Hann lét Affleck hafa Óskarsverðlaunahlutverk og lék sjálfur í kínverskri mynd og sú mynd, Kínamúrinn, er búin að tapa 80 milljónum,“ sagði Kimmel við mikla kátínu viðstaddra og Damon sjálfs.

Ræðu Kimmel má sjá í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×