Íslenski boltinn

Markasúpa í Lengjubikarnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar síðasta sumar.
Úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar síðasta sumar. vísir/hanna
Það fór nóg af mörkum þegar A-deild Lengjubikars kvenna hófst í dag. Alls voru 23 mörk skoruð í þremur leikjum.

Í Fífunni gerðu bikarmeistarar Breiðabliks og Íslandsmeistarar Stjörnunnar 4-4 jafntefli.

Stjarnan var 0-3 yfir í hálfleik eftir að hafa skorað þrjú mörk á sex mínútna kafla seint í fyrri hálfleik. Lára Kristín Pedersen, Agla María Albertsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir voru á skotskónum.

Fanndís Friðriksdóttir gaf Blikum von þegar hún skoraði á 49. mínútu. Þrettán mínútum síðar minnkaði Hildur Antonsdóttir muninn enn frekar.

Guðmunda Brynja skoraði sitt annað mark á 74. mínútu en tveimur mínútum síðar minnkaði Guðrún Gyða Haralz muninn í 3-4. Það var svo Rakel Hönnudóttir sem tryggði bikarmeisturunum stig þegar hún jafnaði í 4-4 átta mínútum fyrir leikslok.

Elín Metta skoraði fernu gegn ÍBV.vísir/anton
Elín Metta Jensen skoraði fernu þegar Val vann ÍBV í miklum markaleik í Egilshöll. Lokatölur 6-3, Valskonum í vil.

Elín Metta kom Val í 2-0 með tveimur mörkum á fyrstu 23 mínútum leiksins. Sigríður Lára Garðarsdóttir minnkaði muninn í 2-1 úr vítaspyrnu en landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir jók muninn aftur í tvö mörk fjórum mínútum síðar. Cloé Lacasse átti síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar hún minnkaði muninn í 3-2 á 40. mínútu.

Í seinni hálfleik bætti Elín Metta tveimur mörkum við og Málfríður Anna Eiríksdóttir komst einnig á blað. Eyjakonan Linda Björk Brynjarsdóttir skoraði síðasta mark leiksins á lokamínútunni.

Sandra María skoraði í sigri Þórs/KA.vísir/hanna
Í Boganum á Akureyri vann Þór/KA stórsigur á FH, 5-1.

Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði tvívegis fyrir Þór/KA og þær Rut Matthíasdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og Sandra María Jessen sitt markið hvor. Sú síðarnefnda klúðraði einnig vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik.

Halla Marinósdóttir skoraði mark FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×