Óskabarn í krísu Hörður Ægisson skrifar 3. febrúar 2017 07:00 Vöxtur Icelandair hefur verið ævintýri líkastur á undanförnum árum. Flugfélagið hefur spilað lykilhlutverk, sem stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, í uppgangi nýrrar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar sem hefur átt mestan þátt í þeim umskiptum sem hafa orðið á stöðu íslenska þjóðarbúsins. Eftir nánast linnulausa velgengni eru núna hins vegar blikur á lofti hjá þessu óskabarni þjóðarinnar. Kolsvört afkomuviðvörun sem Icelandair sendi frá sér í vikunni, þar sem búist er við því að afkoman lækki um 30 prósent 2017, varð þess valdandi að hlutabréfaverð félagsins hefur fallið í verði um 27 prósent á tveimur dögum. Tíðindin komu flestum fjárfestum og greinendum í opna skjöldu. Þegar hlutabréfaverð Icelandair stóð hvað hæst – í lok apríl í fyrra – nam heildarvirði félagsins á markaði um 195 milljörðum. Aðeins níu mánuðum síðar hefur markaðsverðmætið minnkað um 115 milljarða. Stjórnendur Icelandair eru að vakna upp við vondan draum. Markaðslögmálin eru knýja þá til þess að ráðast í uppstokkun á viðskiptamódeli flugfélagsins eigi það að vera samkeppnishæft á komandi árum. Viðskiptavinir þess eru að langstærstum hluta erlendir ríkisborgarar. Fyrir þá skiptir „sérstaða“ Icelandair – að vera „íslenskt“ flugfélag – engu máli, heldur velja þeir sér flugfélag fyrst og fremst út frá lægsta verði. Ört vaxandi samkeppni, sem birtist meðal annars í því að um 30 flugfélög fljúga frá Íslandi næsta sumar, hefur valdið því að flugfargjöld hafa lækkað verulega og eru í dag um fjórðungi lægri en á sama tíma fyrir ári. Þetta er vitaskuld fagnaðarefni fyrir neytendur. Minna fyrir Icelandair hins vegar. Flugfélagið hefur flotið sofandi að feigðarósi samtímis þessari þróun. Greinendur hafa bent á að fyrirtækið er að selja fargjöld á svipuðu verði og lággjaldaflugfélög en á sama tíma með kostnaðaruppbyggingu líkt og hefðbundin flugfélög sem bjóða fulla þjónustu. Þótt staðan sé um margt dökk, eins og sakir standa, þá er ekki ósennilegt að hún eigi enn eftir að versna áður en hún verður betri. Meiri líkur en minni eru á að flestar ytri aðstæður haldi áfram að þróast til hins verra fyrir Icelandair. Rekstrarkostnaður mun að óbreyttu aukast talsvert á árinu vegna mikilla samningsbundinna launahækkana, olíuverð virðist ætla áfram að þokast upp á við og fátt bendir til annars en að gengi krónunnar hækki frekar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á afkomu flugfélagsins. Þá er gangur félagsins að versna á sama tíma og Icelandair þarf að ráðast í miklar fjárfestingar vegna endurnýjunar á flugflotanum. Það er áhyggjuefni. Gengi Icelandair verður því augljóslega ekki snúið við á einni nóttu. Það verður mikil áskorun fyrir núverandi yfirstjórnendur að endurvinna traust og trúverðugleika hluthafa. Fyrir íslenskan almenning, sem á óbeint meira en helmingshlut í félaginu í gegnum eignarhald lífeyrissjóðanna, skiptir miklu að vel takist til í þeim efnum. Staðan í dag er sú að Icelandair, líkt og mörg önnur félög í Kauphöllinni, er dæmi um fé án hirðis þar sem enginn stjórnarmanna þess virðist eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta í félaginu sem hluthafi. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þetta þarf að breytast ekki síðar en á næsta aðalfundi flugfélagsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Tölum endilega um staðreyndir Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Með utanríkisstefnu í molum – stefnir Ísland í stríð við Íran? Ingólfur Shahin Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Harmleikurinn í Úkraínu: Svör við nokkrum spurningum Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Forvitni er lykillinn að framtíðinni Árni Sigurðsson Skoðun Halldór 04.01.2025 Halldór Ekki meira bull, takk! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun
Vöxtur Icelandair hefur verið ævintýri líkastur á undanförnum árum. Flugfélagið hefur spilað lykilhlutverk, sem stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, í uppgangi nýrrar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar sem hefur átt mestan þátt í þeim umskiptum sem hafa orðið á stöðu íslenska þjóðarbúsins. Eftir nánast linnulausa velgengni eru núna hins vegar blikur á lofti hjá þessu óskabarni þjóðarinnar. Kolsvört afkomuviðvörun sem Icelandair sendi frá sér í vikunni, þar sem búist er við því að afkoman lækki um 30 prósent 2017, varð þess valdandi að hlutabréfaverð félagsins hefur fallið í verði um 27 prósent á tveimur dögum. Tíðindin komu flestum fjárfestum og greinendum í opna skjöldu. Þegar hlutabréfaverð Icelandair stóð hvað hæst – í lok apríl í fyrra – nam heildarvirði félagsins á markaði um 195 milljörðum. Aðeins níu mánuðum síðar hefur markaðsverðmætið minnkað um 115 milljarða. Stjórnendur Icelandair eru að vakna upp við vondan draum. Markaðslögmálin eru knýja þá til þess að ráðast í uppstokkun á viðskiptamódeli flugfélagsins eigi það að vera samkeppnishæft á komandi árum. Viðskiptavinir þess eru að langstærstum hluta erlendir ríkisborgarar. Fyrir þá skiptir „sérstaða“ Icelandair – að vera „íslenskt“ flugfélag – engu máli, heldur velja þeir sér flugfélag fyrst og fremst út frá lægsta verði. Ört vaxandi samkeppni, sem birtist meðal annars í því að um 30 flugfélög fljúga frá Íslandi næsta sumar, hefur valdið því að flugfargjöld hafa lækkað verulega og eru í dag um fjórðungi lægri en á sama tíma fyrir ári. Þetta er vitaskuld fagnaðarefni fyrir neytendur. Minna fyrir Icelandair hins vegar. Flugfélagið hefur flotið sofandi að feigðarósi samtímis þessari þróun. Greinendur hafa bent á að fyrirtækið er að selja fargjöld á svipuðu verði og lággjaldaflugfélög en á sama tíma með kostnaðaruppbyggingu líkt og hefðbundin flugfélög sem bjóða fulla þjónustu. Þótt staðan sé um margt dökk, eins og sakir standa, þá er ekki ósennilegt að hún eigi enn eftir að versna áður en hún verður betri. Meiri líkur en minni eru á að flestar ytri aðstæður haldi áfram að þróast til hins verra fyrir Icelandair. Rekstrarkostnaður mun að óbreyttu aukast talsvert á árinu vegna mikilla samningsbundinna launahækkana, olíuverð virðist ætla áfram að þokast upp á við og fátt bendir til annars en að gengi krónunnar hækki frekar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á afkomu flugfélagsins. Þá er gangur félagsins að versna á sama tíma og Icelandair þarf að ráðast í miklar fjárfestingar vegna endurnýjunar á flugflotanum. Það er áhyggjuefni. Gengi Icelandair verður því augljóslega ekki snúið við á einni nóttu. Það verður mikil áskorun fyrir núverandi yfirstjórnendur að endurvinna traust og trúverðugleika hluthafa. Fyrir íslenskan almenning, sem á óbeint meira en helmingshlut í félaginu í gegnum eignarhald lífeyrissjóðanna, skiptir miklu að vel takist til í þeim efnum. Staðan í dag er sú að Icelandair, líkt og mörg önnur félög í Kauphöllinni, er dæmi um fé án hirðis þar sem enginn stjórnarmanna þess virðist eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta í félaginu sem hluthafi. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þetta þarf að breytast ekki síðar en á næsta aðalfundi flugfélagsins.
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun