Erlent

Brexit-frumvarp afgreitt úr neðri deild breska þingsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá breska þinginu í kvöld.
Frá breska þinginu í kvöld. Vísir/AFP
Þingmenn í neðri deild breska þingsins samþykktu með yfirgæfandi meirihluta að heimila ríkisstjórn Theresu May að hefja viðræður breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands. BBC greinir frá.

494 þingmenn sögðu já gegn nei-atkvæðum 122 þingmanna en þriðja og síðasta umræða um frumvarpið fór fram í breska þinginu í kvöld.

Líkt og í fyrri umræðum studdi forysta stærsta tjórnarandstöðuflokksins, Verkamannaflokksins, tillöguna, en forysta Skoska þjóðarflokksins og Frjálslyndra demókrata voru henni andvíg.

Stuðningur Verkamannaflokksins við frumvarpið var þó ekki átakalaus. Þingmaðurinn Clive Lewis sagði sig úr forystusveit verkamannaflokksins. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, hafði krafið þingmenn sína um stuðning við frumvarp. Sagði hann að Verkamannaflokkurinn gæti ekki komið í veg fyrir útgöngu Bretlands úr ESB.

Frumvarpið verður nú tekið til umræðu í Lávarðadeildinni, efri deild breska þingsins, áður en það verður að lögum.

May hefur áður sagt að stjórn hennar muni virkja 50. grein Lissabonsáttmála ESB fyrir lok marsmánuðar og þannig formlega hefja útgönguferli Bretlands. Búist er við að viðræður Bretlands og ESB muni standa í um tvö ár.

Hæstiréttur Bretlands dæmdi í síðasta mánuði að nauðsyn væri á aðkomu breska þingsins áður en 50. greinin yrði virkjuð. May hafði þá áður sagt að aðkoma þingsins væri óþörf eftir að meirihluti breskra kjósenda kusu með því að landið gengi úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní síðastliðinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×