Lífið

200 þúsund króna blómakápan greinilega í uppáhaldi

Margrét og Henrik tóku vel á móti Guðna Th. og Elizu.
Margrét og Henrik tóku vel á móti Guðna Th. og Elizu. NORDICPHOTOS/AFP
Það er greinilegt að blómakápan frá fransk-kanadíska hönnuðinum Marie Saint Pierre er í miklu uppáhaldi hjá Elizu Reid, forsetafrú Íslands, sem var í opinberri heimsókn í Danmörku ásamt eiginmanni sínum, Guðna Th. Jóhannessyni. Kápa Elizu vakti athygli þegar hún klæddist henni við þingsetningarathöfnina í byrjun desember og nú aftur, í Danmerkurheimsókninni.

Eliza Reid klæddist kápunni flottu líka við þingsetningu í desember. Fréttablaðið/Vilhelm
Margrét Þórhildur Danadrottning og Henrik prins tóku vel á móti þeim hjónum á þriðjudaginn í höllinni Amalíuborg sem er bústaður dönsku konungsfjölskyldunnar. Eliza skein skært í blómakápunni, ljósum kjól og Camper-skóm. Guðni sjálfur klæddist svo svörtum jakkafötum og var með vínrautt bindi. Margrét drottning var smart eins og hún á að sér að vera en hún klæddist hvítri pilsdragt og var með túrkís­blátt skart. Henrik var í gráum jakkafötum og með ljósfjólublátt bindi við.

Þess má geta að blómakápan hennar Elizu kemur úr vetrarlínu seinasta árs. Kápan kallast Pyrola og á vef hönnuðarins segir að kápan „sé fyrir alla sem vilja gleyma sér í blómagarði“. Kápan er kragalaus með blómi á barminum. Kápan kostar rétt rúmar 200.000 íslenskar krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×