Fótbolti

Barnamiðarnir uppseldir á leiki Íslands á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna sæti sínu á EM.
Íslensku stelpurnar fagna sæti sínu á EM. Vísir/Anton
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er að fara að keppa á EM í Hollandi næsta sumar og það er gríðarlega áhugi á leikjum íslensku stelpnanna og ljóst að margir Íslendingar verða í stúkunni á leikjum liðsins í riðlakeppninni.

Miðasala á leiki Íslands á EM 2017 gengur mjög vel samkvæmt frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands. Barnamiðar eru uppseldir á leikina en það eru miðar sem voru seldir með 50% afslætti.

Enn er hægt að kaupa miða á leiki Íslands í verðsvæði tvö á fullu verði en þeir gilda jafnt fyrir börn sem fullorðna.

Ennþá eru einnig fáanlegir miðar í verðsvæði 2 á leiki Íslands en 250 miðar eru til á leikinn gegn Frakklandi, 500 á leikinn gegn Sviss og 500 á leikinn gegn Austurríki.

Ísland leikur fyrsta leikinn sinn á móti Frakklandi í Tilburg 18. júlí, leikur tvö er á móti Sviss í Doetinchem 22. júli og þriðji og síðasti leikur íslenska liðsins er síðan á móti Austurríki í Rotterdam 26. júlí.

Koning Willem II Stadion leikvangurinn í Tilburg tekur 14.500 manns, De Vijverberg í Doetinchem tekur 12.500 manns og Sparta Stadion Het Kasteel leikvangurinn í Rotterdam tekur aðeins 10.500 manns.

KSÍ vekur líka athygli á því að Icelandair býður upp á pakkaferðir á leiki riðlakeppninnar og eru ýmsar útfærslur í boði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×