Endurtekningin Þorvaldur Gylfason skrifar 29. desember 2016 07:00 Ég stóð fyrst álengdar og tyllti mér síðan í sófann í myrkvuðum salnum við hlið bláókunnugrar konu sem fylgdist hugfangin með því sem fram fór. Hún hafði setið þarna lengi hreyfingarlaus að sjá. Fagnandi andlitsdrættirnir og augnaráðið leyndu því samt ekki að hún skemmti sér vel. Ég líka. Ég gat ekki stillt mig um að segja við hana í hálfum hljóðum: Svo vill til að ég hef reynt þetta áður. Það var í Reykjavík 1972 þegar Bobby Fischer og Boris Spassky háðu heimsmeistaraeinvígi í skák. Fáir aðrir en sjóaðir skákmenn hefðu getað gert sér í hugarlund aðdráttarafl slíks einvígis þar eð langur tími leið á milli leikja, ekkert að gerast, endurtekningin var yfirþyrmandi og þögnin og samt soguðust áhorfendur án viðnáms inn í slitrótta atburðarásina fullir eftirvæntingar og gleði. Tíminn flaug, en hægt. Sjaldan hafði ég þá orðið jafnhissa.Sorgin bugar gleðina Og nú var sagan óvænt að endurtaka sig fyrir augum mínum og annarra í Hirshhorn-safninu í Washington, D.C. Þar stendur nú frábær yfirlitssýning á verkum Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns. Hann stóð þarna á hvíta tjaldinu ásamt lítilli hljómsveit eins og klipptur út úr sovézkum sjónvarpsþætti stuttu eftir stríð og söng „Sorrow Conquers Happiness“ aftur og aftur, á að gizka hundrað sinnum, þetta tók upp undir hálftíma frá upphafi til enda og hélt síðan áfram hring eftir hring eftir hring. Sumir áhorfendurnir horfðu á alla sýninguna frá upphafi til enda, jafnvel tvisvar í röð, býst ég við, eða oftar. Einu tilbrigðin birtust í hóglátum blæbreytingum söngvarans og undirleik hljómsveitarinnar. Lagið er fínt þótt það taki aðeins um fimmtán sekúndur í flutningi. Ragnar hefur m.a. flutt verkið á rússnesku í Sankti Pétursborg, bæði á járnbrautarstöðinni þar og í Hermitage-safninu. Staðarvalið átti vel við því textinn er eins og ágrip af rússneskri skáldsögu.Vani verður vanabindandi Ragnar hefur leikið þennan leik áður, með ýmsum blæbrigðum. Hann fékk Kristján Jóhannsson óperusöngvara og aðra til að flytja átta mínútna atriði úr óperunni Brúðkaup Fígarós eftir Mozart um hundrað sinnum í röð í einni striklotu á leiksviði í New York. Verkið heitir Algleymi (e. Bliss). Sýningin tók tólf tíma samfleytt, ég man ekki hvort hún hófst á hádegi og lauk á miðnætti eða öfugt. Áhrifin minna mig á Laugardalshöllina forðum – nú eða heimsmeistaraeinvígið í New York um daginn þar sem norski stórmeistarinn Magnus Carlsen gerði fyrst tólf jafntefli í röð við rússneska stórmeistarann Sergey Karjakin og sigraði síðan Rússann í taugaveikluðum bráðabana og hélt þannig heimsmeistaratitlinum. Þeir eru báðir 26 ára að aldri, þrem árum yngri en Fischer var 1972. Ég þykist vita af reynslunni í Laugardalshöllinni forðum hvernig andrúmsloftið var á áhorfendabekkjunum í New York. Endurtekningin veldur fyrst svolítilli óþreyju – hvað er ég eiginlega að gera hérna? – og síðan sogast áhorfandinn smám saman inn í hringiðuna og getur varla slitið sig frá henni fyrr en allt er um garð gengið. Hvað veldur? Hjálpar þetta okkur kannski til að skilja hvers vegna lítil börn vilja einatt heyra sömu söguna aftur og aftur þótt þau kunni hana utan að? Hjálpar þetta okkur til að skilja hvers vegna fullorðnir kjósa sama flokkinn aftur og aftur þótt þeir eigi að geta sagt sér hvað það kostar? Einstein sagði: Geðveiki er að gera sama hlutinn aftur og aftur og eiga von á nýrri niðurstöðu.Öryggi Fyrr í ár birti bandaríska tímaritið New Yorker langa ritgerð um Ragnar Kjartansson eftir rösklega níræðan listgagnrýnanda sinn, Calvin Tomkins. Ragnar segir þar frá því að hann hafi kynnzt endurtekningunni barn í Iðnó þar sem foreldrar hans æfðu stíft kvöld eftir kvöld, alltaf sömu tuggurnar. Hann hefur sennilega fundið til öryggis frammi fyrir endurtekningunni og ímyndað sér að hún væri efni í list. Og nú leyfir hann okkur og heiminum öllum að njóta hennar með honum. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Sparnaður án aðgreiningar Davíð Már Sigurðsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Öðruvísi, fordæmd, útskúfuð en einnig ósigrandi Arna Magnea Danks Skoðun Sorg barna - leit að merkingu Matthildur Bjarnadóttir Skoðun
Ég stóð fyrst álengdar og tyllti mér síðan í sófann í myrkvuðum salnum við hlið bláókunnugrar konu sem fylgdist hugfangin með því sem fram fór. Hún hafði setið þarna lengi hreyfingarlaus að sjá. Fagnandi andlitsdrættirnir og augnaráðið leyndu því samt ekki að hún skemmti sér vel. Ég líka. Ég gat ekki stillt mig um að segja við hana í hálfum hljóðum: Svo vill til að ég hef reynt þetta áður. Það var í Reykjavík 1972 þegar Bobby Fischer og Boris Spassky háðu heimsmeistaraeinvígi í skák. Fáir aðrir en sjóaðir skákmenn hefðu getað gert sér í hugarlund aðdráttarafl slíks einvígis þar eð langur tími leið á milli leikja, ekkert að gerast, endurtekningin var yfirþyrmandi og þögnin og samt soguðust áhorfendur án viðnáms inn í slitrótta atburðarásina fullir eftirvæntingar og gleði. Tíminn flaug, en hægt. Sjaldan hafði ég þá orðið jafnhissa.Sorgin bugar gleðina Og nú var sagan óvænt að endurtaka sig fyrir augum mínum og annarra í Hirshhorn-safninu í Washington, D.C. Þar stendur nú frábær yfirlitssýning á verkum Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns. Hann stóð þarna á hvíta tjaldinu ásamt lítilli hljómsveit eins og klipptur út úr sovézkum sjónvarpsþætti stuttu eftir stríð og söng „Sorrow Conquers Happiness“ aftur og aftur, á að gizka hundrað sinnum, þetta tók upp undir hálftíma frá upphafi til enda og hélt síðan áfram hring eftir hring eftir hring. Sumir áhorfendurnir horfðu á alla sýninguna frá upphafi til enda, jafnvel tvisvar í röð, býst ég við, eða oftar. Einu tilbrigðin birtust í hóglátum blæbreytingum söngvarans og undirleik hljómsveitarinnar. Lagið er fínt þótt það taki aðeins um fimmtán sekúndur í flutningi. Ragnar hefur m.a. flutt verkið á rússnesku í Sankti Pétursborg, bæði á járnbrautarstöðinni þar og í Hermitage-safninu. Staðarvalið átti vel við því textinn er eins og ágrip af rússneskri skáldsögu.Vani verður vanabindandi Ragnar hefur leikið þennan leik áður, með ýmsum blæbrigðum. Hann fékk Kristján Jóhannsson óperusöngvara og aðra til að flytja átta mínútna atriði úr óperunni Brúðkaup Fígarós eftir Mozart um hundrað sinnum í röð í einni striklotu á leiksviði í New York. Verkið heitir Algleymi (e. Bliss). Sýningin tók tólf tíma samfleytt, ég man ekki hvort hún hófst á hádegi og lauk á miðnætti eða öfugt. Áhrifin minna mig á Laugardalshöllina forðum – nú eða heimsmeistaraeinvígið í New York um daginn þar sem norski stórmeistarinn Magnus Carlsen gerði fyrst tólf jafntefli í röð við rússneska stórmeistarann Sergey Karjakin og sigraði síðan Rússann í taugaveikluðum bráðabana og hélt þannig heimsmeistaratitlinum. Þeir eru báðir 26 ára að aldri, þrem árum yngri en Fischer var 1972. Ég þykist vita af reynslunni í Laugardalshöllinni forðum hvernig andrúmsloftið var á áhorfendabekkjunum í New York. Endurtekningin veldur fyrst svolítilli óþreyju – hvað er ég eiginlega að gera hérna? – og síðan sogast áhorfandinn smám saman inn í hringiðuna og getur varla slitið sig frá henni fyrr en allt er um garð gengið. Hvað veldur? Hjálpar þetta okkur kannski til að skilja hvers vegna lítil börn vilja einatt heyra sömu söguna aftur og aftur þótt þau kunni hana utan að? Hjálpar þetta okkur til að skilja hvers vegna fullorðnir kjósa sama flokkinn aftur og aftur þótt þeir eigi að geta sagt sér hvað það kostar? Einstein sagði: Geðveiki er að gera sama hlutinn aftur og aftur og eiga von á nýrri niðurstöðu.Öryggi Fyrr í ár birti bandaríska tímaritið New Yorker langa ritgerð um Ragnar Kjartansson eftir rösklega níræðan listgagnrýnanda sinn, Calvin Tomkins. Ragnar segir þar frá því að hann hafi kynnzt endurtekningunni barn í Iðnó þar sem foreldrar hans æfðu stíft kvöld eftir kvöld, alltaf sömu tuggurnar. Hann hefur sennilega fundið til öryggis frammi fyrir endurtekningunni og ímyndað sér að hún væri efni í list. Og nú leyfir hann okkur og heiminum öllum að njóta hennar með honum. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.