Bíó og sjónvarp

Aðalleikarar Hjartasteins verðlaunaðir í Marokkó

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur Hjartasteins, ásamt Baldri Einarssyni og Blæ Hinrikssyni.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og handritshöfundur Hjartasteins, ásamt Baldri Einarssyni og Blæ Hinrikssyni. Vísir/EPA
Leikararnir Baldur Einarsson og Blær Hinriksson voru valdir bestu leikararnir á kvikmyndahátíðinni Marrakech í Marokkó um helgina fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni Hjartasteini.

Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Sagan fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina. Tökur fóru fram haustið 2015 í Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Vopnafirði og Dyrhólaey.

Baldur og Blær með verðlaunin.Vísir/EPA
Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir og skrifar handritið að Hjartasteini, en þetta er hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Hann hefur hingað til skrifað og leikstýrt stuttmyndum - til að mynda gerði hann hina margverðlaunuðu stuttmynd Hvalfjörður sem hefur alls hlotið 45 verðlaun á kvikmyndahátíðum þar á meðal dómaraverðlaun í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Cannes árið 2013.

Hjartasteinn hefur undanfarið sópað að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum en hún vann til að mynda Q Hugo verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago í Bandaríkjunum í október síðastliðnum.

Áður hafði myndin unnið til þrennra verðlauna í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá í Póllandi. Guðmundur Arnar var valinn besti leikstjórinn, Baldur Einarsson hlaut sérstök dómnefndarverðlaun fyrir leik sinn í myndinni og myndin vann til Kirkjuverðlauna hátíðarinnar.

Hjartasteinn var heimsfrumsýnd í Venice Days dagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum í september og vann þar til Queer Lion verðlauna hátíðarinnar. Eftir það hefur hún tekið þátt á fjölda virtra alþjóðlegra kvikmyndahátíða, m.a. í Toronto í Kanada, Busan í Suður Kóreu og Gent í Belgíu.


Tengdar fréttir

Sigurför Hjartasteins

Kvikmyndin Hjartasteinn hefur farið sannkallaða sigurför um heiminn og raðað inn verðlaunum á hverri kvikmyndahátiðinni eftir annari. Lífið tekur hér saman verðlaunin og birtir nokkrar myndir af hátíðunum sem eru orðnar ansi margar.

Hjartasteinn fékk þrenn verðlaun í Varsjá

Fyrsta kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd var sigursæl á kvikmyndahátíðinni í Varsjá um helgina. Myndin verður frumsýnd hér á Íslandi í kringum áramótin.

Hjartasteinn fær enn ein verðlaunin

Hjartasteinn, fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, hlaut Gold Q Hugo verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago í Bandaríkjunum um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×