Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Sagan fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina. Tökur fóru fram haustið 2015 í Borgarfirði eystri, Seyðisfirði, Vopnafirði og Dyrhólaey.

Hjartasteinn hefur undanfarið sópað að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum en hún vann til að mynda Q Hugo verðlaunin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago í Bandaríkjunum í október síðastliðnum.
Áður hafði myndin unnið til þrennra verðlauna í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Varsjá í Póllandi. Guðmundur Arnar var valinn besti leikstjórinn, Baldur Einarsson hlaut sérstök dómnefndarverðlaun fyrir leik sinn í myndinni og myndin vann til Kirkjuverðlauna hátíðarinnar.
Hjartasteinn var heimsfrumsýnd í Venice Days dagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum í september og vann þar til Queer Lion verðlauna hátíðarinnar. Eftir það hefur hún tekið þátt á fjölda virtra alþjóðlegra kvikmyndahátíða, m.a. í Toronto í Kanada, Busan í Suður Kóreu og Gent í Belgíu.